Erlent

Ætlaði að tilkynna um þjófnað en sótti þess í stað um sem hælisleitandi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Maðurinn ætlaði sér að tilkynna um stolið veski í þýsku borginni Heidelberg en það reyndist ekki svo auðvelt.
Maðurinn ætlaði sér að tilkynna um stolið veski í þýsku borginni Heidelberg en það reyndist ekki svo auðvelt. Vísir/Getty
Kínverskur ferðamaður dvaldi í tvær vikur á meðal flóttamanna í Þýskalandi fyrir algjöran misskilning. Maðurinn hafði leitað til yfirvalda í þeim tilgangi að tilkynna um þjófnað á veski sínu en úr varð að hann sótti um hæli í Þýskalandi. Fyllti hann út rangt eyðublað.

Í þýskum miðlum kemur fram að bakpokaferðalangurinn 31 árs gamli tali hvorki þýsku né ensku, hafi gengist undir læknisskoðun auk þess sem fingraför voru tekin af honum. Starfsmaður Rauða krossins komst síðar að því að veski Kínverjans hafði verið stolið í Heidelberg. Í stað þess að leita til lögreglu skráði ferðamaðurinn sig sem hælisleitanda. 

Ferðamaðurinn mætti snemma í júlí á gistiheimili ásamt fleiri flóttamönnum. Haft er eftir starfsmanni Rauða krossins að hann hafi skorið sig úr hópnum, verið allt öðruvísi og ósjálfbjargra. Grunur starfsmannsins, Christoph Schluetermann, hafi svo fengist staðfestur með aðstoð þýðingarforrits sem skilaði frösum á borð við: „Ég vil fara í ferðalag til útlanda.“ Kom upp úr krafsinu að Kínverjinn ætlaði einnig að ferðast til Ítalíu og Frakklands.

Ímyndaði sér Evrópu öðruvísi

Áður en að því kom hafði Kínverjinn leyft yfirvöldum að taka fingraför hans auk þess sem vegabréf og vegabréfsáritun voru tekin af honum. Hann kippti sér ekki upp við það. Í framhaldinu gekkst hann undir læknisskoðun og fékk sömu gögn í hendur og aðrir flóttamenn. Hann snæddi á gistiheimili fyrir flóttamenn og fékk dagpeninga.

Schluetermann segir að starfsfólk gistiheimilsins hafi gert tilraunir til að ná í fólk til að reyna að komast til botns í málinu. Vandræði með vegabréfsáritun mannsins hafi tafið enn frekar fyrir því. Þá hefur BBC eftir þýska miðlinum WDR að maðurinn hafi ekki reiðst þegar upp komst um mistökin, tveimur vikum síðar. Hann hafi yfirgefið Þýskaland og látið þau orð falla að Evrópa væri öðruvísi en hann hefði reiknað með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×