Erlent

Reyna að safna fé til hjálparstarfs

Samúel Karl Ólason skrifar
Sýrlensk börn í flóttamannabúðum í Líbanon.
Sýrlensk börn í flóttamannabúðum í Líbanon. Vísir/EPA
Hlé hefur verið gert á friðarviðræðum stríðandi fylkinga í Sýrlandi sem staðið hafa yfir í Genf í Sviss. Leiðtogafundur um aukið fé til hjálparstarfs í Sýrlandi hefst í dag. Deiluaðilar kenna hvor öðrum um hversu illa hefur gengið en erindreki Sameinuðu þjóðanna sem stjórnar viðræðunum gerði hlé til loka febrúar en látlaus átök hafa geisað í landinu þrátt fyrir viðræðurnar.

Í gær gerði stjórnarher Sýrlands, ásamt bandamönnum sínum frá Íran og Hezbollah, árás norður af borginni Aleppo þar sem birgðaleið til borgarinnar var lokað.

Staðan eins og hún var í fyrrakvöld. Árásin norður af Aleppo heppnaðist og tókst stjórnarhernum að brjóta umsátrið um Nubl og Zahraa á bak aftur.Vísir/GraphicNews
Í dag hefst síðan ráðstefna í London þar sem leiðtogar heimsins hittast til að reyna að tryggja meira fjármagn til hjálparstarfs á svæðinu. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra verður á staðnum fyrir hönd Íslands.

Til stendur að reyna að safna 6,2 milljörðum punda, eða um 1.150 milljarða króna.

David Cameron forsætisráðherra Breta hefur þegar lýst því yfir að Bretar muni leggja til einn komma tvo milljarða punda til viðbótar við það sem áður hafði verið lofað og búist er við því að önnur ríki fylgi í kjölfarið með viðlíka loforðum á fundinum. Á meðal annarra fundarmanna má nefna Angelu Merkel Þýskalandskanslara og John Kerry utanríkisráðherra Bandaríkjanna en alls eru fulltrúar frá sjötíu ríkjum viðstaddir.

Skipuleggjendur ráðstefnunnar telja að auka megi stöðugleika í Mið-Austurlöndum með því að byggja skóla og skapa störf fyrir flóttafólk. Þannig megi líka koma í veg fyrir að flóttafólk yfirgefi svæðið og flýi til Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×