Handbolti

Haukar ætla sér að taka titilinn þriðja árið í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gunnar Magnússon er á sínu öðru tímabili með Hauka.
Gunnar Magnússon er á sínu öðru tímabili með Hauka. vísir/anton
Séu formenn, þjálfarar og fyrirliðar liðanna í Olís-deild karla sannspáir verða Haukar Íslandsmeistarar þriðja árið í röð. Og það er markmiðið á Ásvöllum segir Gunnar Magnússon, þjálfari liðsins.

„Við ætlum að vinna þetta þriðja árið í röð. Við erum með þéttan og góðan hóp en gerum okkur grein fyrir að það eru mörg lið sem ætla sér titilinn og deildin verður jafnari en í fyrra,“ sagði Gunnar.

Haukar hafa fengið sterka leikmenn til sín í sumar og breiddin í hópnum er mikil.

„Við erum með aðeins þéttari hóp en í fyrra. Auðvitað söknum við nokkurra reynslumikilla manna og Tjörvi [Þorgeirsson] er í erfiðum meiðslum og það er óvíst með hann í vetur. En við höfum fengið góða menn í staðinn og þeir eru að komast inn í þetta,“ sagði Gunnar en þeir Daníel Þór Ingason, Þórður Rafn Guðmundsson, Guðmundur Árni Ólafsson og Andri Heimir Friðriksson bættust við leikmannahóp Hauka í sumar.

Um síðustu helgi tryggðu Íslandsmeistararnir sér sæti í 2. umferð forkeppni EHF-bikarsins þar sem þeir mæta Alingsås frá Svíþjóð. En hvaða möguleika eiga Haukar gegn sænska liðinu?

„Það verður skemmtilegt að mæta þeim og gaman að bera sig saman við topplið í Svíþjóð. Það er erfitt að segja fyrirfram en við ætlum okkur áfram,“ sagði Gunnar.

Eins og áður sagði eru Haukar Íslandsmeistarar síðustu tveggja ára. En hefur Gunnar áhyggjur af því að leikmenn Hauka séu orðnir saddir eftir velgengni síðustu ára?

„Nei, ég hef ekki áhyggjur af því en það verður alltaf meira krefjandi á hverju ári. Það verður ekkert auðveldara að „mótivera“ menn en það er þannig karakter í þessu liði að ég hef ekki áhyggjur af því,“ sagði Gunnar sem fer með Hauka á sinn gamla heimavöll í Vestmannaeyjum í dag.

Leikurinn hefst klukkan 16:00 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×