Lífið

Aldrei séð eftir að hafa gefið dóttur sína

Snærós Sindradóttir skrifar
Vigdís Erlingsdóttir var ung einstæð móðir þegar hún tók ákvörðun um að gefa ófædda dóttur sína til ættleiðingar. Ákvörðun sem hún hefur aldrei séð eftir.
Vigdís Erlingsdóttir var ung einstæð móðir þegar hún tók ákvörðun um að gefa ófædda dóttur sína til ættleiðingar. Ákvörðun sem hún hefur aldrei séð eftir. Vísir/GVA
Það er bara einn dagur á ári sem ég leyfi mér að gráta og það er í september. Á afmælinu hennar. Ég græt ekki af söknuði eða eftirsjá. Ég græt af því að ég leyfi mér þennan eina dag til að gráta,“ segir Vigdís Erlingsdóttir sem gaf dagsgamla dóttur sína til ættleiðingar fyrir 25 árum.

Vigdís er fædd og uppalin í Hlíðunum í Reykjavík en hugurinn leitaði alltaf til ömmu á Flateyri þar sem hún eyddi öllum sumrum og stórhátíðum. „Mamma mín var einstæð móðir, vann sem kennari og var svo í aukavinnu á sumrin svo það voru ekki aðstæður hjá henni til að vera með barn hjá sér á sumrin.

Mamma og pabbi skildu þegar ég var þriggja ára. Amma varð ekkja þegar mamma mín var sex ára þannig að það var mikil kvennaþrautaganga kynslóðanna að halda öllu rúllandi. Við höfum fjórar kynslóðir kvenna staðið í því að ala upp börnin okkar einar. Langamma og amma urðu ekkjur með ung börn.“

Ákvörðunin um að gefa næstelstu dóttur sína til ættleiðingar var að sumu leyti ákvörðun um að endurtaka ekki líf móður sinnar. „Ég ætlaði ekki að lenda í sömu aðstæðum og móðir mín og standa í þessu endalausa harki. Ég óttaðist að barnið mitt myndi upplifa það sama og ég, að alast upp föðurlaust.

Flateyri kallaði

„Ég fann mig mikið betur fyrir vestan en í Reykjavík. Ég tórði í menntaskóla í Reykjavík í þrjár vikur en svo fór ég bara vestur að vinna. Skólaganga mín var ekki lengri en það svo ég fór í fiskinn. Það var enginn sem reyndi að stoppa mig í þeirri ákvörðun,“ segir Vigdís.

Móðir Vigdísar og amma héldu þétt utan um hana en faðir hennar var ekki til staðar. „Pabbi var mikill drykkjumaður. Ég var þriggja ára þegar foreldrar mínir skildu. Faðir minn vann ýmis afrek í lífinu, en föðurhlutverkið var ekki eitt af þeim.Ég kynntist honum ekki nema þegar hann hringdi ljót símtöl undir áhrifum. Ég varð svona millistykki á milli mömmu og pabba. Það var ofboðslegt áreiti frá honum en ég átti erfitt með að skella á hann. Ég upplifði aldrei neina tengingu við hann eða stuðning. Bara þessi reiðisímtöl sem hann hringdi frá því að ég var sex eða sjö ára gömul til að tala illa um mömmu. Þetta hafði allt saman djúpstæð áhrif á mig og mínar ákvarðanir, sem ég í raun og veru fór ekki að vinna úr fyrr en fyrir nokkrum árum.“

Vigdís vann í frystihúsinu fyrir vestan í eitt ár en fór svo á flakk með móður sinni sem stundaði nám í Noregi og Bandaríkjunum á þeim tíma. „Ég gafst upp á að vera í Bandaríkjunum á nokkrum mánuðum og fékk það í gegn að fljúga heim og fara aftur vestur í fiskinn. Það sumar tók ég svo ákvörðun um að fara í heimavistarskóla í Reykholti.“

Vigdís Erlingsdóttir þurfti að þola augngotur frá ljósmæðrum á Landspítalanum við fæðingu dóttur sinnar sem hún ætlaði að ættleiða frá sér. Hún hefur aldrei látið illmælgi vegna ættleiðingarnar hafa áhrif á sig Fréttablaðið/GVA
Kynntist barnsföður sínum

Á fyrstu önninni í Reykholti kom í ljós að Vigdís var komin fjóra mánuði á leið með elstu dóttur sína. Þá var hún nýlega búin að kynnast strák sem síðar varð barnsfaðir hennar. „Ég hafði sem sagt orðið ófrísk áður en ég kynntist honum. Þarna stóðum við, ég átján ára og hann sautján ára, og tókum bæði ákvörðun um að hætta í skólanum og fara suður. Ég fékk vinnu á leikskóla í janúar og ætlaði heldur betur að taka þetta með stæl en ég vann í rúman mánuð þar þangað til ég fann það mjög sterkt að ég vildi fara vestur til ömmu. Hann kom með mér vestur og við byrjuðum að búa. Hann tók þá ákvörðun að standa með mér vitandi að hann ætti ekki barnið sem ég gekk með.“

Í maí fæddist elsta dóttir Vigdísar, María Rut Kristinsdóttir, sem hefur vakið athygli fyrir baráttu sína gegn kynferðisofbeldi og einlæga frásögn af slíku ofbeldi sem hún varð fyrir í æsku. María hefur verið einn skipuleggjenda Druslugöngunnar undanfarin ár og starfar nú í innanríkisráðuneytinu við að gera aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins.

„Við þrjú héldum áfram að búa saman á Flateyri og það gekk bara ljómandi vel. En ef maður horfir til baka þá vorum við óttalegir krakkar. Það var alltaf einhver þrá í mér til að fara í skóla en það var ekki í boði búandi á Flateyri þannig að ég fór að vinna í frystihúsinu og hann fór á sjóinn. Þetta týpíska þorpslíf.“

Einu og hálfu ári eftir fæðingu Maríu varð Vigdís aftur ólétt. „Ég er gengin fjóra mánuði þegar hann bara fer.“ Barnsfaðirinn sem hafði staðið með henni í gegnum meðgöngu fyrsta barnsins gekk óvænt út einn daginn. Sambandinu var lokið.



Vigdís og litla stúlkan hennar á fæðingardeildinni í herberginu sem þeim var úthlutað til að þær fengju næði frá öðrum.
Ákvörðun í sónar

„Þetta var rosalegt áfall. Ég sá fram á að standa uppi ein 21 árs með tvö föðurlaus börn. Ég sat með sjálfri mér og vissi ekkert hvernig ég átti að horfast í augu við það sem myndi taka við. Ég var það langt gengin að ég átti ekki marga möguleika. En ég man svo greinilega eftir því þegar ég fór sjálf að hugsa að einhver annar gæti tekið við því sem þá var byrjað.“

Vigdís var sett í lok september og var á leið í ómskoðun á Ísafjörð í maí það sama ár. „Það voru ekki komin göng á milli fjarða og bróðir minn, sem er átta árum eldri en ég, keyrði mig í sónarinn. Við vorum stödd uppi á Breiðadalsheiði og ég man nákvæmlega á hvaða stað við vorum á heiðinni þegar hann snýr sér að mér og segir: „Vigga, þú hefur aðra kosti.“ Ég hafði ekki sagt einum einasta manni frá því sem ég hafði verið að hugsa. Ég vildi engum segja að ég hefði íhugað að kannski væri betra fyrir barnið að fá framhald annars staðar.“

Bróðir Vigdísar stakk upp á þeim möguleika að gefa barnið til ættleiðingar. Sjálf væri hún ung og óvíst hvað framtíðin bæri í skauti sér. „Hann var voðalega bróðurlegur í þessu samtali. Ég var auðvitað búin að hugsa þetta en það að bróðir minn skyldi nefna þetta við mig hjálpaði mér mikið og sannfærði mig um að þetta væri ekki óeðlileg hugsun hjá mér. Ég var búin að sjá fyrir mér, í mínum einkahugsunum, hvað ég væri að gefa þessum einstaklingi í maganum á mér mikið tækifæri. Svo ég fór í sónarinn sem gekk vel og þegar ég kom aftur út í bíl var ég búin að taka ákvörðun.“

Sótti falinn styrk

Fljótlega sagði Vigdís mömmu sinni frá ákvörðuninni. „Henni brá auðvitað en hún kyngdi þessu,“ segir Vigdís.

Við tóku vangaveltur um það hvernig hún ætti að bera sig að, stödd á Flateyri. Internetið var ekki komið til kastanna og hún hafði ekki hugmynd um hvernig íslensk börn væru ættleidd. Úr varð að hún fékk tíma hjá félagsráðgjafa í Reykjavík.

„Það var ekki meira en svona hálfur mánuður frá því að ég fór í sónar og þar til ég kom suður í fyrsta tímann til félagsráðgjafans. Yndisleg kona. Ég var opin og hreinskilin eins og ég hef verið síðastliðin 25 ár varðandi þetta. Ég hef aldrei verið hrædd við að tala um þetta, aldrei falið mig. Það hefur kannski verið í þriðja eða fjórða tíma sem félagsráðgjafinn sagðist sjá að mér yrði ekki snúið. Innst inni var ég búin að taka þessa ákvörðun svo hún spurði hvort ég vildi fá hjálp við að finna foreldra.“

Sjálf hafði Vigdís ímyndað sér að hún þyrfti að setja sig í samband við barnavernd og fara yfir lista af foreldrum sem biðu eftir barni. „Þá segir félagsráðgjafinn mér að nokkrum árum áður hafi hún hjálpað til við að aðstoða íslensk hjón við að ættleiða barn og spyr hvort hún eigi ekki bara að hringja í þau og athuga hvort þau séu til í að skoða þetta.

Þegar ég kem í næsta tíma segir hún mér frá þeirri skemmtilegu tilviljun að hjónin hafi verið nýbúin að setja sig aftur á lista yfir foreldra sem hafi áhuga á að ættleiða íslenskt barn. Ég bað bara um að fá að hitta þau.“

Og úr varð að Vigdís fór ein að hitta hjónin, komin átta mánuði á leið. „Enn þann dag í dag veit ég ekki hvar ég fann allan þennan styrk. Ég fylgdi alltaf straumnum, var ekki fremst í flokki að segja fólki til heldur vildi ég vera á milli og hafa mig ekki of mikið í frammi. En þarna fer ég ein í heimsókn til þeirra og segi þeim að ég eigi að eiga eftir mánuð. Ég sagði það ekki við þau þá en þarna fann ég að þetta var fólkið sem ég vildi að æli upp barnið mitt.



Samgangurinn á milli fjölskyldnanna hélt áfram fyrstu árin og dóttirin sem var ættleidd fékk að kynnast systkinum sínum. Vigdís átti dóttur, Maríu Rut Kristinsdóttur, fyrir en eignaðist önnur tvö börn eftir fæðingu dótturinnar sem hún gaf.
Ég hafði lagt upp með það í viðtölum að ég fengi að fylgjast með og hafa þetta opið. Ég vildi ekki afhenda barnið mitt einhverjum og svo yrði lokað á mig. Það skipti mig máli að fá að fylgjast með og að barnið myndi alltaf vita að það væri ættleitt og ég væri líffræðileg móðir þess.

Augngotur ljósmæðra

Vigdís átti að eiga í lok september en var sett af stað snemma þess mánaðar. Stúlkan kom í heiminn 6. september. „Ég er ein af þessum heppnu sem þurfa ekkert að hafa fyrir fæðingunum. Mamma var viðstödd og um leið og stelpan fæddist bað ég hana að hringja í foreldra hennar. Enn þann dag í dag veit ég ekki hvort ég var svona tilbúin að gefa barnið eða hvort þetta var þroskaleysi. En mér fannst ég svo ofboðslega tilbúin að gefa þessa gjöf að það þyrfti að gerast hratt.“

Stúlkan var ekki sett á brjóst og ljósmæður deildarinnar reyndu að koma í veg fyrir að Vigdís myndaði tengsl við stúlkuna. „Ég var lengi að jafna mig á því að mér fannst ég vera eins og annars flokks móðir í augum ljósmæðranna. Mér fannst augngoturnar gefa til kynna að ég væri stelpan sem væri að gefa barnið sjálfviljug frá sér og það gerði maður ekki.

Það var tekin ákvörðun um að ég færi niður á krabbameinsdeild en barnið fór á vökudeildina. Það var talið betra að ég væri ekki nálægt barninu. Mér fannst hræðilegt að vera á krabbameinsdeildinni. Þar var veikt fólk. Ég sagðist vilja fara upp og hitta barnið. Þann tíma sem ég væri á spítalanum vildi ég fá að umgangast hana og fannst mikilvægt að ég væri manneskjan sem afhenti nýjum foreldrum hana.“

Úr varð að þær mæðgur fengu lítið herbergi á spítalanum þar sem þær dvöldu tvær einar. „Það var yndislegur tími. Ég var þar drjúgum stundum. Hún var ekki nema ellefu merkur, langminnst minna barna.“

Á milli tannanna á fólki

„Daginn eftir komu foreldrarnir. Ég kom þarna inn, tók stelpuna upp og rétti þeim hana. Það var mjög mikilvægt í mínum huga að ég myndi afhenda hana. Síðar var haldinn formlegur fundur þar sem farið var yfir formsatriði og vel að honum staðið af hálfu fagaðila sem sáu um ferlið. Ég hef aldrei fundið fyrir eftirsjá. Ferillinn var eins og þetta væri skrifað handrit.“

Síðar sama dag fór Vigdís af spítalanum og aðeins nokkrum dögum síðar keyrði hún vestur til Flateyrar aftur. Stúlkan varð eftir hjá nýjum foreldrum í Reykjavík.

Ættleiðingin var opin og fyrstu ár dótturinnar voru samskiptin þó nokkur. Hér sést Vigdís með dóttur sinni á fyrsta ári. Í seinni tíð hafa samskiptin minnkað en Vigdís segir að það hafi gerst á eðlilegan máta og án allra særinda.
„Ég fór snemmsumars að vestan ófrísk og kom heim með ekkert barn. Ég vissi að þetta var umtalað á eyrinni. Auðvitað. Það væri ekkert samfélag þar ef þetta hefði ekki verið rætt. Það ræddi þetta enginn við mig en ég heyrði það út undan mér og haft eftir öðrum úr gufunni, sjoppunni eða af kaffistofunum að maður gæfi ekki barnið sitt.

Ég var mjög undirbúin fyrir þetta þegar ég kom vestur og svaraði því bara til að jú, maður gefur barnið sitt ef maður trúir því að barninu kæmi til með að líða betur annars staðar. Þá getur maður alveg gert það. Þetta var í smá tíma á allra vörum en svo var þetta bara búið. Ég hélt áfram að ganga með Maju mína í leikskólann og lífið hélt áfram.“

Vigdís var í daglegum samskiptum við nýja foreldra dóttur sinnar fyrstu vikurnar. Fyrst og fremst til að uppfylla þörf annarra fyrir að vita hvernig gengi. „Ég fann aldrei fyrir því að ég væri fyrir þeim með því að hafa samband og fyrir það er ég þakklát. Þau gáfu sér alltaf tíma til að tala við mig. En ég hef einhvern veginn aldrei litið á hana sem dóttur mína, kannski af því að þetta gekk allt svo vel. Þetta er eins og skrifað handrit. Það er eins og hún hafi sjálf valið sér foreldra og ég, kynmóðir hennar, hafi aðstoðað hana við að komast heim.“

Engin eftirsjá

Eins og áður segir leyfir Vigdís sér einn dag á ári til að gráta vegna stúlkunnar, en það er á afmælinu hennar. Þann dag hefur allt ferlið verið ofarlega í huga hennar, og hún grátið, ekki síst vegna þakklætis yfir því hvað allt gekk vel. Samskiptin hafa verið nokkur í gegnum tíðina en minni eftir að stúlkan varð fullorðin og þá fyrst og fremst á afmælum og stórhátíðum undanfarin ár. „Ég hef aldrei fundið fyrir eftirsjá. Aldrei velt því fyrir mér af hverju ég gerði þetta eða fundið fyrir neinni reiði út af ákvörðuninni. Ég var ekki í neyslu eða óreglu. Ég var því kannski ekki þessi staðalmynd af verðandi móður sem neyðist til að fara þessa leið vegna óviðunandi aðstæðna. Ég tikkaði þannig ekki í neitt af þeim boxum. En ég veit að þó fólk hafi ekki hent steinum í mig þá var talað um mig. Og ég leyfði því ekki að hafa nein áhrif á mig. Ef einhver kom og spurði mig út í þetta þá svaraði ég hreinskilnislega hver ástæðan væri fyrir því að ég tók þessa ákvörðun.“

Þrátt fyrir að samskiptin við stúlkuna hafi verið góð hafa þær aldrei rætt ættleiðinguna í raun og veru. „Núna síðustu ár hefur kannski komið smá kvíði fyrir því að einn daginn hringi hún bjöllunni hjá mér og vilji fá svör við því af hverju ég gaf hana. Ég kvíði því af þeirri einföldu ástæðu að ég geti ekki gefið henni nægilega góð svör. En kannski er besta svarið bara að þetta hafi átt að gerast. Þessi saga okkar er falleg vegna þess að það var hægt að gera þetta á yfirveguðum og faglegum nótum.“

Þegar Vigdís er spurð hvað hún eigi mörg börn og hvað þau heiti telur Vigdís stúlkuna alltaf með. „Mér þykir ofboðslega vænt um hana. Þegar ég fór að heimsækja hana, tók hana í fangið og faðmaði hana þá var samt aldrei erfitt að kveðja hana því ég vissi hvað hún var á góðum stað. Ég hef aldrei falið mig en ég finn alveg og skil að það er ekki öllum sem finnst þetta jafn eðlilegt og fallegt og mér. Það eru 25 ár síðan og ég veit að þetta átti bara að gerast.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×