Viðskipti innlent

Segir Icelandair geta verið með höfuðstöðvar hvar sem er

Birgir Olgeirsson skrifar
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group.
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group. Vísir/GVA
„Þær eru algjörlega á frumstigi,“ segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, um hugmyndir fyrirtækisins um að byggja höfuðstöðvar sínar í Vatnsmýri. Fyrirtækið hefur óskað eftir viðræðum við Reykjavíkurborg um úthlutun lóðar á svæðinu. Borgarráð hefur falið sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs og skrifstofu eigna og atvinnuþróunar borgarinnar að leiða viðræðurnar við Reykjavíkurborg.

Sjá einnig: Icelandair Group vill byggja í Vatnsmýri

Björgólfur segir ferlið á algjöru frumstigi og að fyrirtækið hafi einfaldlega sótt um þess lóð til að tryggja staðsetningu þess til framtíðar í Vatnsmýrinni ef sú ákvörðun verður tekin að byggja höfuðstöðvarnar þar.

„Við erum einfaldlega að horfa til þess ef niðurstaðan verður sú að við verðum hérna áfram, þá séum við með aðstöðu til að það geti orðið að veruleika,“ segir Björgólfur í samtali við Vísi um málið. „Svo veit maður ekki hvernig skipulagði verður, það er rifist um flugvöllinn og ég veit ekki hvað og hvað.“

Icelandair hefur byggt nýtt þjálfunarsetur í Vallahverfinu í Hafnarfirði undir flughermi þar sem flugmenn Boeing 757 verða þjálfaðir. Fyrirtækið ætlar einnig að byggja skrifstofuhúsnæði á Völlunum þar sem verða sviðsstjórnir fyrir verkfræðinga. Því komi alveg eins til greina að reisa höfuðstöðvar á lóðinni sem fyrirtækið á í Hafnarfirði.

„Þetta félag er þannig að það getur verið staðsett hvar sem er,“ segir Björgólfur.

Spurður hvort Icelandair þurfi stórar höfuðstöðvar svarar hann því játandi. „Þegar þú ert kominn yfir fjögur þúsund manna starfslið þar sem helmingurinn er á ferð á flugi þá er ljóst að við þurfum aðstöðu. Við erum með aðstöðu víða. Við erum í

Vatnsmýrinni, Icelandair GroupIcelandair og Icelandair Cargo, hótelin eru með sína aðstöðu, flugfélag Íslands. Svo er IGS í Keflavík,  þannig að við erum víða.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×