Alls fóru 4.855.505 farþegar um Keflavíkurflugvöll á árinu 2015, einni milljón fleiri en árið 2014. Aldrei hafa fleiri farþegar farið um völlinn heldur en í fyrra og er aukningin 25,5 prósent á milli ára. Samkvæmt farþegaspá Isavia er gert ráð fyrir að á þessu ári aukist farþegafjöldinn enn frekar og verði 6,25 milljónir.
Í samræmi við þessa miklu fjölgun farþega er nú unnið að því að stækka flugstöðina en á þessu ári munu níu þúsund fermetrar verða teknir í gagnið og sjö þúsund til viðbótar árið 2017.
Í tilkynningu frá Isavia segir að Keflavíkurflugvölllur gæti tekið við 10 milljónum farþega á ári ef dreifing á flugi innan dagsins væri betri. Nú eru mestu álagstímar sólarhringsins þeir tímar sem Icelandair og WOW air nota til þess að tenga Evrópu og Norður-Ameríku en tímarnir þar á milli eru vannýttir.

