Búið er að kalla út allar björgunarsveitir á Vesturlandi, auk sporhunda og stjórnstöðvarbíls af höfuðborgarsvæðinu, til að leita tveggja erlendra ferðamanna við Löngufjörur á Snæfellsnesi.
Bílaleigubíll ferðamannanna fannst við Löngufjörur í dag en honum átti að skila í gær. Þá áttu ferðamennirnir einnig bókað flug úr landi en skiluðu sér ekki í það, að því er segir í tilkynningu frá Landsbjörg.
Að sögn Guðna H. Haraldssonar, sem situr í svæðisstjórn björgunarsveita á Vesturlandi, eru á sjöunda tug leitarmanna á svæðinu eða á leið á svæðið.
Hann segir að Landsbjörg hafi fengið veður af hinum týndu ferðamönnum á fjórða tímanum í dag.
