Erlent

Hert landamæragæsla við Eyrarsundsbrú hefur mikil áhrif á atvinnulíf

Una Sighvatsdóttir skrifar
Hert landamæragæsla hefst í dag við Eyrarsundsbrúna milli Svíþjóðar og Danmerkur.
Hert landamæragæsla hefst í dag við Eyrarsundsbrúna milli Svíþjóðar og Danmerkur. Vísir/EPA
Hert landamæragæsla hefst í dag við Eyrarsundsbrúna milli Svíþjóðar og Danmerkur. Því er spáð að þetta muni hafa mikil áhrif á atvinnulíf á svæðinu.

Frá og með deginum í dag þurfa allir lestarfarþegar á leið frá Danmörku til Svíþjóðar yfir Eyrarsundsbrúna að fara frá borði á lestarstöðinni við Kastrup flugvöll og sýna skilríki. Búið er að setja upp 325 metra langa girðingu meðfram lestarteinunum.

Þetta er gert í kjölfar ákvörðunar sænska þingsins um hert landamæraeftirlit, vegna stríðs straums flóttamanna síðasta ár.

Lestarferðin milli Malmö og Kaupmannahafnar hefur tekið um hálftíma en búist er hún muni nú lengjast um allt að 40 mínútur. Milli 8-9000 manns taka lestina daglega á milli og hefur þetta því áhrif á daglegt líf fjölda fólks sem býr í Danmörku en sækir vinnu í Svíþjóð. Danska lestarfyrirtækið DSB varar auk þess við því að miðaverð muni að öllum líkindum hækka vegna kostnaðar við landamæragæsluna.

Fjölmargir hafa mótmælt þessum aðgerðum á síðustu vikum og meðal annars hefur verið gagnrýnt að ákvörðunin sé tekin frá sjónarhóli Stokkhólmsbúa, án tillits til hagsmuna íbúa við Eyrarsund, sem stundum hefur verið kallað Stór-Kaupmannahafnarsvæðið enda varð brúin til þess að sameina stórt atvinnusvæði þegar hún var opnuð árið 2000.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×