Erlent

Tveggja ára drengur sá fyrsti sem ferst á flótta á nýju ári

Una Sighvatsdóttir skrifar
Frá björgunarstarfi á Miðjarðarhafi.
Frá björgunarstarfi á Miðjarðarhafi. Mynd/Landhelgisgæslan
Tveggja ára gamall drengur er fyrsti flóttamaðurinn sem vitað er til þess að látið hafi lífið á nýju ári á flótta yfir Miðjarðarhafið til Evrópu. Drengurinn var farþegi á yfirhlöðnum gúmmíbát sem lenti á skerjum undan grísku eyjunni Agaþonisi í gær.

Hinum 39 farþegum bátsins, þar á meðal móður barnsins, var bjargað þökk sé grískum sjómönnum sem urðu vitni að slysinu. Þeir drógu einnig lík barnsins úr sjónum. Tíu voru fluttir á sjúkrahús vegna ofkælingar. Þetta kemur fram á vef breska blaðsins Guardian.

Þrátt fyrir vetrarkulda og erfitt sjólag heldur straumur flóttafólks áfram til Evrópu frá ströndum Norður-Afríku og Tyrklands, en þaðan lagði gúmmíbáturinn upp með fólkið um borð snemma í gærmorgun. Ekki hefur komið fram hvert þjóðerni flóttafólksins er.

Tæplega milljón flóttafólks kom til Evrópu eftir þessari hættulegu leið árið 2015, flest á flótta undan stríðsástandi í Sýrlandi, Afganistan og Írak. Yfir 3.600 manns létu lífið á árinu í tilraun til að komast yfir hafið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×