Lífið

Hefur aldrei stigið í fætur

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Ég er nákvæmlega eins gömul og ég vil vera og meðan svo er, er gaman að lifa,“ segir Anna Pálína.
"Ég er nákvæmlega eins gömul og ég vil vera og meðan svo er, er gaman að lifa,“ segir Anna Pálína. Mynd/Feykir
„Þetta var óvænt upphefð,“ segir Skagfirðingurinn Anna Pálína Þórðardóttir sem lesendur Feykis kusu Norðvestlending ársins 2015. Tilefnið var það að hún gaf út bók í lok síðasta árs sem heitir Lífsins skák og geymir minningar hennar.

„Líf mitt hefur reyndar verið allsérstakt því ég fékk lömunarveikina þegar ég var sex mánaða og hef aldrei stigið í fætur,“ viðurkennir Anna Pálína sem býr á dvalarheimilinu Sigurhæðum á Sauðárkróki og lætur vel af sér. Virðist reyndar ekki kvartsár kona að eðlisfari.

„Ég er fædd árið 1935 og á þeim tíma lék lífið yfirleitt ekki við lamað fólk. Það var ekkert sjálfgefið að lömuð börn væru heima hjá sér, nema þá lokuð inni. En ég er svo heppin að foreldrar mínir voru á undan sinni samtíð. Faðir minn var húsasmíðameistari, hann smíðaði kerru handa mér sem ég var keyrð í úti, svo ég gæti verið innan um hina krakkana.

Ég er eina barn foreldra minna saman en á hálfsystkini og ein systir mín, Elínborg, ólst upp með mér. Hún hlaut líka lömun því hún datt út um glugga á annarri hæð þegar hún var tveggja ára og náði sér aldrei að fullu, var hölt og hægri höndin alveg ónýt. En við vorum aldar upp við þann hugsunarhátt að við gætum allt og værum fullgildar manneskjur.“

Móðir Önnu Pálínu hét Stefanía Guðbjörg Þorláksdóttir og faðir hennar Þórður Guðni Jóhannesson. Hún kveðst minnast þeirra með afskaplega miklu þakklæti fyrir hvernig líf þau skópu henni og Elínborgu, sem kölluð var Ella. Þær hafi líka alltaf átt góðar vinkonur.

„Við vorum eiginlega alltaf fimm stelpur saman. Þær sem eru á lífi eru allra bestu vinkonur mínar í dag, við höfum aldrei sleppt höndum hver af annarri. Við lékum alls konar leiki, bæði úti og inni – meira inni að vetrinum. Þær minnast þess að eftir því sem stelpujökkunum fjölgaði í forstofunni heima því breiðar brosti mamma.“

Anna Pálína á líka hamingjuríkt hjónaband að baki, en missti eiginmanninn, Þórhall Filippusson, fyrir rúmum fimm árum. En hún kynntist honum á sjúkrahúsi.

„Það var engin heimilishjálp á Króknum á áttunda áratugnum og ef mamma fór á spítala fór ég líka því ég gat ekki verið ein. Þar hitt ég Þórhall, hann var fráskilinn, við hændumst hvort að öðru, giftum okkur og áttum saman 26 góð ár.

Við ferðuðumst mikið, fórum til Reykjavíkur tvisvar til þrisvar á ári því okkur fannst svo gaman að fara í leikhús. Fórum bara það sem okkur langaði. Aldrei verið að hugsa eða tala um neina lömun, það hefur aldrei verið í mínu tilfelli. Eitt gaf lífinu sérstakan lit. Ég fór í svifflug með Þórhalli oftar en einu sinni, hann var einn af þekktustu svifflugmönnum Íslands.“

Anna Pálína er með lamaða hægri hönd og skrifaði ekki bókina sína sjálf.

„Ég á góða vinkonu sem heitir Þóra Gísladóttir og hún stóð með mér í þessu verkefni, ég talaði og hún ritaði á tölvuna.“

Tölvan er Önnu Pálínu þó mikilvæg, hún notar vísifingur vinstri handar til að pikka á hana. „Ég hef samband við fólk bæði gegnum síma og tölvu og er mikið á fésbók. „Svo hef ég verið bókaormur allt mitt líf,“ lýsir hún og kveðst alltaf hafa eitthvað fyrir stafni, meðal annars saumaskap.

„Ég hef saumað dúka, púða, klukkustrengi og einn stóran dúk með harðangri og klaustri. Systir mín hefur aðstoðað mig með það sem með hefur þurft. En ég er líka sjálfstæð og vil bjarga mér sjálf. Nota mikið þjónustubíl, til dæmis í bókasafnsferðir. Bókasafnið er minn uppáhaldsstaður á Króknum.

Vinir mínir eru mér mikils virði, ég á þeirra aðstoð og hjálpfýsi vísa. Á hinni árlegu sæluviku hér í Skagafirði hefur myndast sæluvikuklúbbur í kringum mig, í honum eru vinir og ættingjar sem fara með mér á viðburði og skemmtanir.“

Ellin er ekki áhyggjuefni hjá Önnu Pálínu. „Ég er nákvæmlega eins gömul og ég vil vera og á meðan svo er þá er gaman að lifa.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×