Innlent

Þór kominn með Hoffell til Reykjavíkur

Samúel Karl Ólason skrifar
Skipin á leið til hafnar í dag.
Skipin á leið til hafnar í dag. Vísir/Stefán
Varðskipið Þór er komið til hafnar í Reykjavík með flutningaskipið Hoffell í drætti. Hoffell varð vélarvana suðvestur af Færeyjum á Sunnudaginn og er um að ræða lengstu ferð Þórs með skip í drætti. Þá var þetta annað slíkt verkefni skipsins í þessari ferð.

Samkvæmt tilkynningu frá Landhelgisgæslunni var Þór staddur úti fyrir Breiðafirði þegar hjálparbeiðni barst á sunnudaginn. Varðskipið var rúmar 40 klukkustundir að sigla á vettvang og tók tvo tíma að koma taug á milli skipa. Þrátt fyrir mikla ölduhæð. Á milli tvö og þrjú í dag tóku dráttarbátar Faxaflóahafna við.

„Ferð Þórs frá því að beiðnin barst og þar til komið var að hafnarmörkum Reykjavíkurhafnar nú í dag er alls 940 sjómílur og tók 111 klukkustundir. Þetta er lengsta ferð Þórs með skip í drætti og annað slíkt verkefni skipsins í þessari ferð en fyrr í ferðinni dró varðskipið togskipið Fróða II ÁR-32,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir að varðskipið sé fyrir löngu búið að sýna fram á mikilvægi þess að Íslendingar eigi öflugt varðskip með mikla dráttargetu. Fiskiskip, flutningaskip og farþegaskip sem reglulega séu í siglingum við Ísland hafi stækkað undanfarna áratugi.

„Aðgerðir gengu í alla staði mjög vel og hefur áhöfnin á Þór góða reynslu og þekkingu á verkefnum sem þessum. Að loknum aðgerðum í dag hélt varðskipið áfram til eftirlits- og löggæslustarfa.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×