Viðskipti innlent

Hafa grætt 410 milljónir á Símabréfum

Sæunn Gísladóttir skrifar
Orri Hauksson, forstjóri Símans, hringdi fyrirtækið inn á markað 15. október 2015.
Orri Hauksson, forstjóri Símans, hringdi fyrirtækið inn á markað 15. október 2015. Fréttablaðið/GVA
Hópur valinna viðskiptavina Arion banka sem fékk að kaupa hlut í Símanum í aðdraganda skráningar hans á markað 15. október síðastliðinn getur selt hlut sinn á morgun fyrir um 27 prósentum hærra verð.

Hópurinn keypti á genginu 2,8 krónur á hlut, en varð að halda hlutnum í þrjá mánuði eftir skráningu. Hlutur hópsins var metinn á 1,49 milljarða króna, en miðað við lokagengi bréfanna í gær, 3,56 krónur á hlut, má áætla að virði hlutarins sé nú 1,9 milljarðar. Hlutur viðskiptavinanna hefur því hækkað um 410 milljónir.

Meðalútboðsgengi Símans var 3,33 krónur á hlut, því er ljóst að almennir kaupendur hlutabréfa hafa ekki hagnast eins mikið á sínum viðskiptum. Miðað við gengi gærdagsins hefur þeirra hlutur einungis hækkað um sjö prósent.

Útboðið var harðlega gagnrýnt í október og vakti nokkuð umtal. Arion banki sagði í kjölfar umræðunnar söluna til viðskiptavina sinna hafa verið misráðna og að bankinn myndi breyta verklagi sínu í framhaldinu.

Arion banki seldi öðrum fjárfestahópi, sem Orri Hauksson forstjóri Símans setti saman, um fimm prósenta hlut í fyrirtækinu á genginu 2,5. Hann má ekki selja fyrr en 1. janúar árið 2017.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×