Skoðun

Hvað getur maður sagt?

Mikael Torfason skrifar
Íslendingar verja um tíu þúsund milljónum í ríkisstyrki til menningar og lista. Inni í því er fjármögnun RÚV og Þjóðleikhúss.

Í heild veltir íslensk menning 200 þúsund milljónum. Margvísleg rök hafa verið færð fyrir því að króna í styrki til menningar og lista margfaldi sig. Og um gildi listar og menningar ætti ekki að þurfa að rífast.

Ég er rithöfundur og í vikunni komst það í fréttir að stjórn Rithöfundasambandsins velji sjálf nefndina sem úthlutar þeim og öðrum rithöfundum starfslaunum. Öll aðalstjórn félagsins fékk úthlutað 12 mánaða rithöfundalaun á dögunum. Af nefnd sem þau sjálf völdu.

Hvað getur maður sagt?

Af mér sjálfum og viðskiptum mínum við þessa nefnd er það að segja að ég fékk ekki rithöfundalaun í ár. Heldur ekki í fyrra.

Nú kann að vera að óljósar skilgreiningar liggi fyrir um hver skal fá, en mér sýnist þetta snúast um það að þeim sé gert kleift að halda sér við efnið sem hafa sýnt vilja og getu til þess. Og að með styrkjunum liggi fyrir afurðir á menningarsviðinu. Og fyrir árið 2015 skilaði ég til úthlutunarnefndarinnar drögum að nýrri bók, minni sjöttu, og leikriti. Bókin heitir Týnd í paradís og fékk ljómandi viðtökur. Mín besta bók, er mér sagt. Leikritagerðin sneri að Síðustu dögum Kjarvals sem Útvarpsleikhúsið flutti og svo Njálu í Borgarleikhúsinu.

Ég er ekki að telja þetta upp til að monta mig heldur til að sýna fram á að úthlutunarnefndin hlýtur, í þessu ljósi, að hafa misstigið sig.

Nú liggur úthlutun fyrir sem tekur til ársins 2016 og aftur: Núll fyrir mig.

Hvað getur maður sagt?

Ég ætla ekki að setja á ræðu um gildi listarinnar, eða menningarinnar; listamannalaun eiga fullan rétt á sér. En, þeim verður að úthluta þannig að enginn vafi leiki á um að þar ráði ekki annarleg sjónarmið för.


Tengdar fréttir

Ýmsar myndir af Kjarval í nýju útvarpsleikriti

Síðustu dagar Kjarvals, nýtt íslenskt leikrit eftir Mikael Torfason, verður frumflutt í Útvarpsleikhúsinu á Rás 1 á morgun, sunnudag. Þar er skyggnst inn í ævi málarans mikla.

Stærðu sig af píslardauða barna

Fyrstu fimm æviár Mikaels Torfasonar og saga foreldra hans eru sögusvið nýrrar bókar hans. Mikael var langveikt barn sem þurfti á blóðgjöf að halda en vegna trúar sinnar vildu foreldrar hans ekki menga líkama hans með blóðgjöf.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×