Erlent

Hjálpargögn á leið til Madaya

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Beðið eftir aðstoð.
Beðið eftir aðstoð. vísir/afp
Bílalest með ýmsar nauðsynjavörur og hjálpargögn er nú á leið til fjallabæjarins Madaya í Sýrlandi. Vörurnar eiga að duga fjörutíu þúsund manns í einn mánuð en um er að ræða mat, teppi og lyf. Á þriðja tug íbúa hafa soltið þar í hel frá byrjun síðasta mánaðar.

Sýrlandsher hefur setið um bæinn síðastliðna sex mánuði. Lokað var á allar birgðaleiðir í október en nú nýlega ákvað Bashar al-Assad Sýrlandsforseti að opna á flutninga til bæjarins að nýju.

Brice de la Vigne hjá samtökunum Læknar án landamæra sagði í samtali við BBC í dag að ástandið í bænum væri hræðilegt. Yfir 250 manns væru alvarlega vannærð, þar af tíu þeirra nær dauða en lífi. Sex börn eru á meðal þeirra sem soltið hafa í hel undanfarnar vikur.

Hjálpargögnum verður jafnframt komið til tveggja annarra bæja í Idlib-héraði í dag, sem uppreisnarhópar sitja nú um.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×