Lífið

Lífsbarátta Lóunnar: Hefjast nú leikar

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Vísir/Ernir
Lífsgyð(j)an

Ég var auðvitað miður mín yfir því að Gyðju vörumerkið væri frátekið þegar hugmyndavinna fyrir nafn á þennan nýja vikulega dálk minn hófst.

Lífsgyð(j)an hefði verið svo elegant en ég vil ekki troða neinum um tær. Svo er Solla líka búin að hertaka GLÓ sem ég viðurkenni að var ákveðinn skellur á sínum tíma.

Ég sætti mig samt betur við það þegar ég fór á GLÓ um daginn og BÓ var þar. Þá hlakkaði nú í minni; GLÓ fór á GLÓ og þar var BÓ.

Helgin

Ég elska helgar. Þær eru uppáhaldið mitt. Ég geri mér grein fyrir því að ég ekki sú eina sem ber þessa tilfinningu í brjósti. En svona líður mér bara og þið megið öll vita af því. 

Ég get ekki beðið eftir komandi helgi en ég er samt lúmskt stressuð. Síðasta helgi var svo svakalega góð að ég hef örlitlar áhyggjur af því að þessi helgi standist ekki samanburð. Ég fór á Mið-Ísland sem var alveg æðislega fyndið, svo fór ég á Prins Póló tónleika sem voru svakalega skemmtilegir.

Rúsínan í pylsuendanum var samt þegar ég fór með vinum mínum á Hverfisbarinn fyrir einskæra tilviljun. Þar var enginn og heldur enginn plötusnúður og við fengum að þeyta skífum allt kvöldið. Það var æðislegt. Það setti samt smá strik í reikninginn þegar ég reif leðurbuxurnar mínar í tætlur eftir að hafa dansað örlítið of ákaft við Sorry með Justin Bieber.

via GIPHY

Heilsukast

Núna um helgina ætla ég að blanda kokteil í Nutribulletinu mínu fyrir vínkonur mínar. Ég keypti Nutribulletið í heilsukasti á svörtum markaði á Twitter. 

Með háleitar hugmyndir, sem sumir myndu kalla óraunhæfar, um að ég yrði einhvers konar ótrúleg útgáfa af sjálfri mér, Smoothie-Gyða.

Það gekk ekkert sérstaklega vel en ég hef notað það mikið til þess að skella í frosna margarítu. Það virkar mjög vel og ég mæli með að sem flestir prófi.







Brunablaðran

Síðastliðna tvo mánuði hef ég verið að díla við hatramar afleiðingar þess að hafa brennt mig á hitapoka.

Skaðvaldurinn sem um ræðir var ekki einu sinni keyrður áfram af rafmagni heldur bara eitthvert gamaldags gúmmígerpi sem ég fór augljóslega einhverju offari við að fylla með heitu vatni.

Ég uppskar djúpt annars stigs brunasár á kálfanum og hef síðan þurft að fara reglulega í umbúðaskipti upp á heilsugæslu. Ég á líka að baki tvo sýklalyfjakúra sökum meinsins. Nú er staðan þannig að ég var að enda við að panta tíma hjá lýtalækni.







Hvítar skyrtur

Mér er sagt af tískuvitrara fólki að hvíta skyrtan sé inn núna. Það er smá stressandi fyrir seinheppna konu. Hvítt hættir að vera chic þegar það er orðið blettótt. Þá verður það bara eitthvað allt annað og minna smart.

Ég keypti mér einu sinni hvítar gallabuxur og einu skiptin sem ég finn fyrir löngun til þess að fara í þær er þegar ég er að díla við þann tíma mánaðarins sem gæti augljóslega sett risastórt, blóðrautt strik í reikninginn.

Um daginn gerði ég heiðarlega tilraun til þess að umfaðma trendið og mætti í skjannahvítri skyrtu í vinnunna. Með fyrsta sopann af kaffinu í munninum hnerraði ég og þið getið bara ímyndað ykkur hvernig það endaði. En ég er búin að skella henni í þvott og ætla að reyna meira og betur þegar ég losna við kvefið.







Sjáumst eftir viku!






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.