Viðskipti innlent

Plain Vanilla fækkar stöðugildum um 14

Samúel Karl Ólason skrifar
Þorsteinn B. Friðriksson, forstjóri Plain Vanilla.
Þorsteinn B. Friðriksson, forstjóri Plain Vanilla. Vísir/VIlhelm
Íslenska tölvuleikjafyrirtækið Plain Vanilla stefnir að því að skila hagnaði innan sex mánaða. Því markmiði verður náð með því að afla meiri tekna í samvinnu við bandaríska tölvuleikjaframleiðandann Glu Mobile Inc, sem nýlega keypti stóran hlut í Plain Vanilla. Þá stendur til að endurskipuleggja starfsemina hér á landi og fækka starfsfólki.

Alls mun stöðugildum fækka um fjórtán, en samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu hafa stöðugildin verið í kringum 80 að undanförnu.

„Stöðugildin eru á nokkrum ólíkum sviðum fyrirtækisins en Plain Vanilla hyggst einbeita sér að leikjaþróun og eigin tekjusköpun með auglýsingum o.fl. leiðum. Auknar beinar tekjur, auk samrekstursins, munu auðvelda Plain Vanilla að skila hagnaði fyrr,“ segir í tilkynningunni.

Áhersla hefur hingað til verið lögð á að fjölga notendum óháð tekjum og var ákveðið að forðast auglýsingar innan leiksins. Þeirri stefnu hefur nú verið breytt

Sjá einnig: Glu setur allt að milljarð í Plain Vanilla

„Nýverið var tilkynnt að Glu Mobile, sem skráð er í kauphöllina í New York, hefði fjárfest í Plain Vanilla fyrir tæpan einn milljarð króna og einnig öðlast kauprétt á öllu hlutafé Plain Vanilla á föstu verði sem gildir í 15 mánuði. Í kjölfar þessara fregna hækkaði hlutabréfaverð í Glu Mobile um 6 prósent.“

Einblína á sjónvarpsþætti

Stærsta sjónvarpsstöð Bandaríkjanna, NBC, ætlar að framleiða tíu þátta seríu sem byggir á QuizUP og ætla Glu og Plain Vanilla að einblína á þróun þáttarins. Í tilkynningunni segir að til umræðu sé að þátturinn verði sýndur beint á eftir Sunday Night Football á sunnudagskvöldum. Þeir þættir eru með þeim vinsælustu í Bandaríkjunum.

Breska fyrirtækið ITV hefur einnig keypt réttinn að QuizUp spurningaþættinum og búist er við að fjöldi fólks muni sækja leikinn þegar þættirnir fara í loftið.

Glu Mobile býr yfir mikilli þekkingu á öflun tekna af vinsælum netleikjum. Fyrirtækið framleiðir fjölmarga slíka, þ.á.m. þekktan leik sem byggir á lífi raunveruleikastjörnunnar Kim Kardashian,“ segir Þorsteinn B. Friðriksson, forstjóri Plain Vanilla í tilkynningunni.

„Við höfum nú þegar byrjað að prófa að birta auglýsingar gagnvart smærri hópi QuizUp notenda og viðbrögðin hafa verið jákvæð sem gefur okkur tilefni til að ætla að það takist að Plain Vanilla skili hagnaði í ár. Þessi er stefnubreyting er hluti af samstarfi okkar við Glu Mobile og ef allt gengur vel munu fyrirtækin tvö hugsanlega sameinast.

Ég tel að sameiningin, ef af yrði, væri mjög jákvæð, bæði fyrir framtíðarþróun Plain Vanilla en einnig fyrir þá mörgu fjárfesta sem lagt hafa okkur til fé í þessa uppbyggingu. Það eru ríflega 4 milljarðar króna sem komið hafa frá fjárfestum frá stofnun fyrirtækisins og sem nýttir hafa verið til að ráða margt hæfasta tæknifólk á Íslandi. Þetta er öflugt fólk sem öðlast hefur mikla reynslu á skömmum tíma. Til lengri tíma litið styrkjum við hins vegar stöðu fyrirtækisins, og áframhaldandi veru þess hér á landi, með því að leggja áherslu á þau svið þar sem við stöndum Glu Mobile framar.“


Tengdar fréttir

Quiz á Up-leið

Plain Vanilla sem framleiðir spurningaappið QuizUp tilkynnti á dögunum um samstarf við bandaríska kapalrisann NBC.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×