Erlent

Bundy hvetur félaga sína til að leggja niður vopn

Bjarki Ármannsson skrifar
Bundy var einn þeirra sem bandaríska alríkislögreglan handtók aðfaranótt gærdagsins.
Bundy var einn þeirra sem bandaríska alríkislögreglan handtók aðfaranótt gærdagsins. Vísir/AFP
Ammon Bundy, leiðtogi vopnaðs hóps manna sem hefur haft skrifstofur náttúruverndarstofnunar í Oregon í Bandaríkjunum á sínu valdi um nokkurra vikna skeið, hefur hvatt félaga sína til að leggja niður vopn og fara heim.

Bundy er meðal þeirra átta sem handteknir voru í áhlaupi bandarísku alríkislögreglunnar aðfaranótt miðvikudags. Þrír aðrir hafa verið handteknir síðan.

Mál Bundy og félaga hefur vakið mikla athygli en þeir hafa setið um skrifstofurnar frá því 2. janúar síðastliðinn til að mótmæla eign alríkisins á beitarlandi í Oregon, sem þeir telja eign íbúa ríkisins.

Meðlimir hópsins eru vel vopnaðir.Vísir/Getty
Að því er breska ríkisútvarpið greinir frá, liggur ekki fyrir hversu margir taka enn þátt í umsátrinu. Í tilkynningu frá lögmanni sínum hvetur Bundy þá til að hætta því.

„Til þeirra sem enn halda til í skrifstofunum, ég elska ykkur,“ er haft eftir Bundy. „Leyfið okkur að sjá um slaginn úr þessu. Gerið það, leggið niður vopn. Farið heim og knúsið fjölskyldur ykkar. Núna tökum við slaginn fyrir dómstólum.“

Hann vottaði einnig Robert „LaVoy“ Finicum, talsmanni hópsins sem lést í áhlaupi alríkislögreglunnar, virðingu sína.

Bæði lögregla á staðnum og alríkislögregla segjast leitast eftir því að leysa úr vandanum á friðsælan hátt.


Tengdar fréttir

Senda út neyðarkall eftir vistum

Svo virðist vera sem vopnuðu mennirnir í Oregon, sem tóku skrifstofur dýraathvarfs á sitt vald, hafi ekki skipulagt valdarán sitt nógu vel.

Vopnaðir menn ögra alríkisstjórninni

Hópur vopnaðra manna hefur náð á sitt vald skrifstofum dýraathvarfs í Oregon. Mennirnir segja markmið sitt vera að berjast gegn harðstjórn og hvetja föðurlandsvini til að ganga til liðs við sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×