Bílar

Ferðast um ísilögð vötn

Sólveig Gísladóttir skrifar
Í bílnum er allt til alls enda dvelur Arnar þar langdvölum. Ég er með sjónvarp, tölvu, rúm og allt sem þarf.
Í bílnum er allt til alls enda dvelur Arnar þar langdvölum. Ég er með sjónvarp, tölvu, rúm og allt sem þarf.
Arnar Lúðvíksson Fahning flutti til Edmonton í Kanada haustið 2013 og starfar sem vöruflutningabílstjóri. Hann hefur upplifað ýmislegt, skógarelda, heimsókn bjarndýra og akstur um ísilögð vötn.

„Kanada hefur alltaf togað í mig og eftir efnahagshrunið líkaði mér ekki að sjá þann farveg sem Ísland var komið í. Því ákváðum við fjölskyldan að þetta væri rétti tíminn til að breyta til og flytja allt okkar hafurtask til Kanada,“ segir Arnar sem flutti ásamt konu sinni og þremur af fjórum börnum sínum til Edmonton í september 2013.

„Mér líkar mjög vel að búa hérna. Mannlegt viðhorf er svo gott og kurteisi er í hávegum höfð,“ segir Arnar en viðurkennir þó að Kanadamenn taki öllum með fyrirvara til að byrja með. „Til dæmis þurfti ég, sem hef þrjátíu ára reynslu af vörubílaakstri, er bæði kranamaður og vinnuvélastjóri, að byrja á því að taka venjulegt bílpróf eins og sautján ára krakki eftir að ég kom til Kanada, í framhaldi af því þurfti ég að taka kanadískt meirapróf.“

Ekur lengri vegalengdir

Arnar útskýrir að til séu nokkrar tegundir vörubílstjóra í Kanada. „Þetta eru ökumenn sem fara styttri vegalengdir, borgarökumenn, sendibílstjórar og svokallaðir „long hall drivers“ en ég fell í þann flokk,“ segir hann en eins og nafnið gefur til kynna ekur Arnar langar vegalengdir og er á ferðinni frá einum degi og upp í viku. „Á venjulegum degi eyði ég 13 klukkustundum í akstri en leyfilegur vinnutími hér í Kanada er 16 klst. á dag sem skiptist í 13 tíma í akstri, einn tíma „on duty“ sem er hugsaður sem tími til að taka olíu og framkvæma skoðanir á bíl og vögnum. Síðan eru tveir tímar hugsaðir sem hvíld en þeim getur þú skipt niður í fjóra hálftíma. Eftir þennan tíma er nauðsynlegt að taka tíu tíma stopp,“ segir Arnar sem ekur eftir svokölluðum 70/7 lögum. Það þýðir að hann megi aka 70 tíma á sjö dögum en eftir þann tíma þarf hann að taka 36 tíma stopp.

Allt til alls í bílnum

Arnar ekur trukk af tegundinni 2015 International Pro-Star. „Hann er með 450 Hp Cummings og 16 gíra Eton Fuller kassa, eigin þyngd er 8,8 tonn en leyfileg heildarþyngd má vera 63,5 tonn á 8 öxla,“ lýsir hann. Að öllu jöfnu dregur Arnar tvo tengivagna á ferðum sínum.

Hann segir allt til alls í bílnum enda nauðsynlegt þar sem hann dvelur þar langdvölum. „Ég er með tölvu, sjónvarp, rúm og allt sem til þarf.“

Sérstakur lífsstíll

Arnar segir trukkakúltúrinn í Kanada allt annan en á Íslandi. „Hér er þetta meira lífsstíll en starf að vera „trucker“. Hér eru til dæmis mörg dæmi um að hjón séu ökuteymi og fari bæði um Kanada og Bandaríkin og búi í bílunum,“ segir Arnar. Hann telur lítinn meting á milli manna vegna bíltegunda. „Alls staðar þar sem þú kemur inn á svokölluð trukkastopp hittirðu fyrir marga trukkara. Þér er ávallt boðið sæti, sama hvernig trukk þú keyrir og venjulega snýst umræðan um allt annað en trukka. Frekar er rætt um ástand vega, vigtir, þyngdir og hversu langt við erum að fara.“

Spennandi ísakstur

Arnar hefur lent í ýmsu á ferð sinni um Kanada. Eitt af því sem honum þótti áhugavert að kynnast var akstur á ísvegi en sumir kannast við þættina Ice Road Truckers á sjónvarpsstöðinni History.

„Ísvegi má finna víða í Kanada en það helgast af því að á suma staði er einungis hægt að komast með ferju á sumrin. Á veturna frjósa árnar og vötnin og ferjurnar hætta að ganga. Þá eru búnir til þessir ísvegir til að aka vörum á þessa staði sem oftast eru námur og einangruð indíánaþorp,“ lýsir Arnar sem hefur ekið eftir slíkum ísvegum nokkrum sinnum.

„Í fyrsta skipti ók ég upp eftir ánni við Yellow Knife um 25 km leið. Það var dálítið óhugnanlegt þegar gæslumaðurinn sagði mér að aka með bílstjórahurðina opna og gluggann farþegamegin opinn. Svo hlustaði maður á brak og bresti í ísnum meðan maður silaðist áfram á 20 km hámarkshraða,“ segir Arnar en bíllinn og farmurinn vógu 53 tonn. Stöðugur ágangur vörubíla á ísveginum veikir vissulega ísinn en Arnar lýsir því að ávallt þegar gerir mikið frost sé vatni sprautað á veginn til að styrkja hann.

Skógareldar og bjarndýr

Skógareldar eru mjög algengir í Kanada. „Á sumrin er þetta alger plága og vegna þeirra verður gríðar­leg eyðilegging,“ segir Arnar sem sjálfur sat fastur í þrjá sólarhringa vegna skógarelda. „Það var tilkomumikil sjón og mikil lífsreynsla,“ segir hann en meginástæðan fyrir því að vegum er lokað er reykur sem leggst yfir þá. „Eftir þrjá sólarhringa höfðu tugir flutningabíla safnast saman báðum megin við reykhafið, þá var ákveðið að aka með tíu bíla í einu í gegnum reykinn í lögreglufylgd á tíu km hraða.“

Arnar hefur einnig upplifað líflegt dýralíf landsins. „Ég stoppaði einu sinni til að taka mynd af skógarbirni. Sá stóð og horfði á mig, labbaði svo upp að trukknum, settist niður eins og hundur og beið eftir að ég gaukaði að honum bita,“ segir Arnar og hlær hressilega.






×