Skoðun

Hundraðekruskógur Háskólans

Hjörvar Gunnarsson skrifar
Við veltum mörgu fyrir okkur á vegferð okkar í gegnum lífið. Sumt gerum við meðvitað, annað ekki. Við veltum því nær ómeðvitað fyrir okkur hvað það er sem okkur langar helst til að borða eða það að við séum orðin þreytt. Annað krefst nokkrar umhugsunar, til að mynda hver sé okkar uppáhalds persóna í ævintýrinu um Bangsímon og félaga.

Fyrir suma er auðvelt að nefna sinn uppáhalds íbúa í Hundraðekruskógi og nefna Tuma tígur vegna þess að hann er jú alltaf hress og ætíð er stutt í spaugið hjá honum, aðrir finna einhver tengsl við Eyrnaslapa og rólegheit hans og enn aðrir finna til með lítilmagnanum Gríslingi. Þegar ég velti þessari stóru spurningu fyrir mér enda ég með að hugsa til persónu sem hvorki er áberandi né hávær, mömmu hans Gúra. Kengúran sem alltaf er hægt að leita til og tekur öllum opnum örmum.

Í Hundraðekruskógi Háskólans fer Stakkahlíðin með hlutverk kengúrumömmunnar góðkunnu.

Báðar eru þær traustar, trygglindar og töff á meðan þær láta lítið yfir sér og það er gott að vera hjá þeim, sérstaklega þegar nemendur eru litlir í sér og þrá ekkert heitar en móðurlega umhyggju. En hvað er það sem skapar þessa nánd og yndisleika sem einkennir líf okkar nemenda á menntavísindasviði? Eins og venjulega felst svarið í okkur sjálfum, það er fólkið sjálft sem skapar stemminguna. Bæði starfsfólk og nemendur og þá sér í lagi þeir sem eru í forsvari hafa staðið sig með eindæmum vel í að skapa háskólasamfélag sem sérhver nemandi getur verið stoltur af.

Sviðsráð menntavísindasviðs hefur barist ötullega fyrir hagsmunum nemenda og verið vakandi fyrir öllu sem betur má fara. Nú þegar kemur að því að kjósa sér fulltrúa í nýtt sviðsráð skiptir miklu máli að velja af kostgæfni þá sem koma til með að leiða okkar fallega samfélag til enn betri vegar. Á framboðslista Vöku má finna nemendur sem hafa reynslu úr sviðsráðum og stjórnum nemendafélaga sem við teljum afar mikilvægt til að ná fram því besta úr hverjum og einum.

Verkefnin sem bíða okkar eru stór og mikilvægt er að vera vakandi á verðinum og til þess þarf gott fólk. Frambjóðendur Vöku eru tilbúnir í þann slag sem framundan er og höfum við sett okkur markmið sem meðal annars snúa að staðfestingu diplómunáms sem við teljum mikilvæga rós í hnappagat skólans auk þess sem við ætlum að einbeita okkur að hagsmunum nemenda menntavísindasviðs á Laugarvatni.

Setjum X við A og tryggjum áframhaldandi velgegni fyrir alla á menntavísindasviði.

Þessi grein er skrifuð sem hluti af greinaskriftaátaki Vöku í tilefni Stúdentaráðskosninga sem fara fram dagana 3. og 4. febrúar.




Skoðun

Skoðun

Yfir­lýsing kennara eftir fund með borgar­stjóra

Andrea Sigurjónsdóttir,Eygló Friðriksdóttir,Guðrún Gunnarsdóttir,Jónína Einarsdóttir,Kristín Björnsdóttir,Lilja Margrét Möller,Linda Ósk Sigurðardóttir,Þóranna Rósa Ólafsdóttir skrifar

Skoðun

Vá!

Benedikta Guðrún Svavarsdóttir skrifar

Sjá meira


×