Lífið

Reykvíkingar virðast halda í sér yfir Ófærð

Birgir Olgeirsson skrifar
Vatnsnotkun jókst talsvert í Reykjavík eftir að sýningu Ófærðar lauk í gærkvöldi.
Vatnsnotkun jókst talsvert í Reykjavík eftir að sýningu Ófærðar lauk í gærkvöldi.
Svo virðist sem Reykvíkingar haldi í sér yfir sjónvarpsþættinum Ófærð á sunnudagskvöldum ef marka má tölur frá Veitum, dótturfyrirtækis Orkuveitu Reykjavíkur, sem sér um rekstur vatnsveitunnar í borginni.

Sýning á fimmta þætti Ófærðar hófst í Sjónvarpinu klukkan 20:55 í gærkvöldi. Á meðan sýningunni stóð dróst verulega úr notkun vatns í Reykjavík úr 215 lítrum á sekúndu í 183 lítra á sekúndu. Sýningu þáttarins lauk klukkan 21:50 og jókst þá notkunin aftur talsvert og fór mest upp í 232 lítra rétt fyrir klukkan tíu í gærkvöldi.

Þó svo að þetta sé ansi skörp aukning, sem virðist haldast í hendur við hvenær Ófærð er í loftinu, þá segir Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitur Reykjavíkur, Veitur vel ráða við þetta álag.

„Þessi aukning er svo sem ekki nándar nærri eins skörp eins og við sjáum stundum í vatnsnotkun, þá gjarnan í kringum jól og því um líkt þegar stór hluti þjóðarinnar hagar sér eins í vatnsnotkun. Langmestu sveiflurnar sem við sjáum eru í stórbruna. Ef að þarf mikið slökkvivatn þurfum við stundum að grípa til ráðstafana í kerfinu til að tryggja nægan aðflutning á köldu vatni þegar glímt er við stórbruna. Það eru erfiðustu tilvikin, ekki klósettferðir eftir Ófærð,“ segir Eiríkur.

Hér fyrir neðan má sjá umræður um Ófærð á Twitter en Íslendingar tísta grimmt á meðan sýningum þáttaraðarinnar stendur. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×