Rúmlega 36 þúsund hafa skrifað undir áskorun Kára Stefánssonar til þingmanna um endurreisn heilbrigðiskerfisins.
Undirskriftasöfnuninni var ýtt úr vör á föstudag og hefur Kári gefið út að hún muni standa yfir í 10 vikur.
Nú þegar tveir dagar eru liðnir af söfnuninni er hún nú þegar orðin sú níunda stærsta í sögunni.
Sjá einnig: Kári hótar ríkisstjórninni 100 þúsund undirskriftum
70 þúsund manns skrifuðu undir stuðning við flugvöllinn í Vatnsmýri, 56 þúsund vildu að forsetinn synjaði staðfestingar lögum um ríkisábyrgð á Icesave skuldum og 55 þúsund skrifuðu undir söfnunina Varið land árið 1974 um áframhald aðildar að Atlantshafsbandalaginu og veru varnarliðsins.
Meðlimir í félaginu Já Íslandi afhentu forseta Alþingis og þingflokksformönnum allra flokka 53.555 undirskriftir þann 2. maí 2014. Þá var skorað á Alþingi að leggja þingsályktunartillögu, um að draga til baka umsókn Íslands að Evrópusambandinu, til hliðar og boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.
51.296 skoruðu svo á forseta Íslands í átakinu Þjóðareign að vísa öllum lögum þar sem fiskveiðiauðlindum væri ráðstafað til lengri tíma en eins árs í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sú söfnun stóð yfir í 69 daga - rétt tæpar 10 vikur.
Forsvarsmenn FÍB afhentu Ögmundi Jónassyni, þáverandi innanríkisráðherra 41 þúsund undirskriftir mótmæli gegn hugmyndum um vegtolla á leiðum út frá höfuðborgarsvæðinu árið 2011.
Hið sama ár tók Jóhanna Sigurðardóttir, sem þá var forsætisráðherra, við undirskriftum 47 þúsund manns sem vildu að stjórnvöld kæmu í veg fyrir söluna á HS Orku til einkaaðila og að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um orkuauðlindirnar.
Heimasíða undirskriftarsöfnunarinnar, endurreisn.is

