Innlent

Fimm mál tengd kampavínsklúbbum í rannsókn lögreglu

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Lögregla hóf rannsókn á Strawberries í kjölfar ítrekaðra ábendinga um vændisstarfsemi.
Lögregla hóf rannsókn á Strawberries í kjölfar ítrekaðra ábendinga um vændisstarfsemi. Vísir/Stefán
Alls hafa sextíu og eitt brot er tengjast starfsemi svokallaðra kampavínsklúbba verið skráð í málaskrá lögreglu árin 2011 til 2015. Á sama tímabili voru alls 197 atvik skráð í dagbók lögreglunnar. Öll tilvik áttu sér stað á höfuðborgarsvæðinu og voru fimm þeirra í rannsókn á síðasta ári.

Þetta kemur fram í svari Ólafar Nordal innnaríkisráðherra við fyrirspurn Þorsteins Sæmundssonar, þingmanns Framsóknarflokksins. Ráðuneytið óskaði eftir umsögn embættis ríkislögreglustjóra en þar eru kampavínsklúbbar skilgreindir sem staðir sem bjóða upp á súludans og/eða félagsskap fáklæddra starfsmanna gegn kaupum á kampavíni.

Frá árinu 2011 hafa fimmtán mál sætt ákærumeðferð. Þrjátíu mál hafa á sama tíma verið látin niður falla. Þá hafa þrír þurft að greiða sekt vegna slíkrar starfsemi, árin 2012 og 2013.

Alls hafa komið upp fimmtán tilfelli sem tengjast brotum á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtistaði. Tólf tilvik vegna auðgunarbrota, þ.e fjárdrætti, þjófnaði eða fjársvikum og jafnmörg tilvik er varða kynferðisbrot. Kynferðisbrotin eru skilgreind þannig að stuðlað hafi verið að slíkum brotum með ginningum, hvatningum eða milligöngu að aðrir hafi samræði eða önnur kynferðismök gegn greiðslu eða tekjur hafðar af vændi annarra, svo og kaup á vændi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×