Bíó og sjónvarp

Fimm milljónir horfðu á Ófærð í Frakklandi

Birgir Olgeirsson skrifar
Stilla úr Ófærð.
Stilla úr Ófærð.
Rúmlega fimm milljónir manns horfðu á íslensku sjónvarpsþáttaröðina Ófærð í Frakklandi í gær. Þáttaröðin var frumsýnd í franska ríkissjónvarpinu, France 2, á besta tíma, að því er fram kemur í tilkynningu frá RVK Studios, framleiðanda þáttanna, en fyrstu fjórir þættirnir voru sýndir sama kvöldið.

RVK Studios segja þessar áhorfstölur hafa komið þeim á óvart þar sem búist var við mikilli samkeppni um áhorf. Tvær nýjar franskar seríur voru einnig frumsýndar þetta kvöld og því bjuggust menn hjá France 2 ekki við að ný íslensk sería mundi halda í við það vinsælasta í frönsku sjónvarpi, en Ófærð endaði í öðru sæti með 18% hlutdeild.

Fjölmiðlar í Frakklandi hafa slegið upp fréttum af þessum miklu vinsældum og þykir mönnum France 2 hafa sýnt hugrekki að tefla fram seríu frá Íslandi á besta sýningartíma.  Í franska dagblaðinu Le Parisien birtist dómur í morgun þar sem þáttaröðin fær fjórar stjörnur af fimm og þykir jafnast á við hina bresku Broadchurch að gæðum, að því er fram kemur í tilkynningunni.

RVK Studios segja þessar tölur ansi góðar og nefnir fyrirtækið sem dæmi að þáttaröðina Fortitude, sem tekin var upp hér á landi, hefði gert það gott á sjónvarpsstöðinni Sky með eina milljón áhorfenda. Lokaþáttur þáttaraðarinnar Mad Men er einnig sagður hafa sett áhorfsmet á ACM-kapalstöðinni í Bandaríkjunum með 3,4 milljónir áhorfenda. Þá er þess getið að Ófærð er einnig sýnd í Noregi í þessar mundir við góðan orðróm og áhorfið þar helst stöðugt. Í kringum 500 þúsund horfa þar í hverri viku.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.