Skoðun

Að sitja við sama borð

Ólafur Teitur Guðnason skrifar
Á þrettándanum afþökkuðu viðsemjendur ISAL tilboð fyrirtækisins um 24% launahækkun út árið 2019, viðbótarhækkanir í samræmi við SALEK-endurskoðunina, nýja bónusa sem gátu gefið allt að 8% launahækkun til viðbótar, og eingreiðslu vegna ársins 2015.

Þegar viðræðurnar hófust voru dagvinnulaun verkamanna hjá ISAL 25% yfir landsmeðaltali.

Skyldi því engan undra að við samningaborðið var fullkomin sátt um launin.

Verkalýðsfélögin gátu hins vegar ekki samþykkt að slakað yrði á hömlum varðandi útvistun og verktöku, sem eiga sér enga hliðstæðu á Íslandi.

ISAL er eina fyrirtækið á Íslandi með kjarasamning sem kveður á um að allir sem stíga fæti inn á svæðið skuli fá sömu laun og starfsmenn fyrirtækisins.

Þú last rétt: Kjarasamningur ISAL gildir ekki bara um starfsmenn fyrirtækisins heldur líka um starfsmenn annarra fyrirtækja.

Þessu til viðbótar er ISAL eina fyrirtækið á Íslandi sem má ekki bjóða út rekstur mötuneytis.

ISAL er eina fyrirtækið á Íslandi sem má ekki bjóða út hliðvörslu og öryggisgæslu.

ISAL er eina fyrirtækið á Íslandi sem þarf sérstakt leyfi aðaltrúnaðarmanns fyrir nánast hverju einasta viðviki sem iðnaðarmenn á vegum annarra fyrirtækja sinna á svæðinu, hversu lítilfjörlegt sem það er.

Þótt ótrúlegt megi virðast hefur enginn fjölmiðill beðið verkalýðsfélögin um að nefna hvaða önnur fyrirtæki búa við slík skilyrði.

Látið hefur verið í veðri vaka að kjaraviðræðurnar hjá ISAL einkennist af því, að fyrirtækið vilji ekki lúta lögmálum íslensks vinnumarkaðar. Þetta eru eins mikil öfugmæli og hugsast getur, því viðræðurnar strönduðu einmitt á því, að ISAL vill fá að starfa eftir almennum leikreglum á Íslandi.

Það vildu verkalýðsfélögin ekki samþykkja. Og fyrir þann sérstaka málstað fórnuðu þau meira en fjórðungshækkun ofan á laun sem þegar voru fjórðungi yfir markaðslaunum.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×