Erlent

Trump lætur páfann heyra það

Samúel Karl Ólason skrifar
Frans Páfi og Donald J. Trump.
Frans Páfi og Donald J. Trump. Vísir/EPA
Forsetaframbjóðandinn Donald Trump er ekki ánægður með Frans páfa. Fyrr í dag gaf Frans í skyn að Trump gæti ekki verið kristinn ef hann vildi reisa vegg á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Trump hefur nú svarað páfanum fullum hálsi og segir að trúarleiðtogi geti ekki leyft sér að draga trú fólks í efa.

Þá segir Trump að Frans ætti að biðja fyrir því að hann yrði forseti því þá myndi Íslamska ríkið ekki ráðast á páfagarð.

Sjá einnig: Páfinn dregur trú Trump í efa

„Ef og þegar ISIS ræðst á Vatíkanið, sem allir vita að er helsta skotmark þeirra, get ég lofað því að páfinn myndi óska þess og biðja fyrir því að Donald Trump hefði verið forseti því þá hefði þetta ekki gerst. Búið væri að gereyða ISIS, sem er ólíkt því sem er að gerast núna,“ segir Trump í tilkynningu.

Ennfremur segir hann að leiðtogar Mexíkó hafi notað páfann í þeim tilgangi til að fá að „halda áfram að ræna Bandaríkin“. Páfinn sæi ekki hvernig stjórnvöld Mexíkó væru að spila með Barack Obama.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×