Viðskipti innlent

Róbert og Árni sýknaðir af stefnu Björgólfs Thors

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Björgólfur krafðist þess að Róbert og Árni yrðu dæmdir til að greiða sér tvær milljónir evra ásamt vöxtum frá 2010.
Björgólfur krafðist þess að Róbert og Árni yrðu dæmdir til að greiða sér tvær milljónir evra ásamt vöxtum frá 2010. Vísir/Stefán/Vilhelm
Róbert Wessman og Árni Harðarson voru í dag sýknaðir af stefnu Björgólfs Thors vegna millifærslu fjögurra milljóna evra af reikningi Actavis Group inn á reikning Salt Investmens, félags í eigu Róberts. Björgólfur stefndi þeim félögum, sem og Salt, vegna málsins.

Björgólfur krafðist í stefnunni að þeir Róbert og Árni yrðu dæmdir til að greiða sér tvær milljónir evra ásamt vöxtum frá 2010. Dómurinn féllst ekki á það og taldi skilyrði skaðabótareglu um saknæmi og ólögmæti háttsemi ekki vera til staðar. 

Björgólfur taldi að Árni og Róbert hefðu án umboðs og heimildar látið millifæra milljónirnar fjórar, sem voru í eigu Mainsee af reikningi Actavis Group inn á reikning Salt og nýtt í eigin þágu. Björgólfur og Róbert áttu í gegnum dótturfélög sín Mainsee til helminga. 

Upphæðin sem Björgólfur vildi fá frá þeim Róberti og Árna var tjón sem hann taldi sig hafa orðið vegna millifærslunnar en Björgólfur var ábyrgur fyrir helmingi fjármunanna sem fengir voru að láni hjá Glitni banka árið 2007.

Í yfirlýsingu sem þeir Róbert og Árni sendu frá sér í kjölfar dómsins segir að um algerlega tilefnislausa málshöfðun hafi verið að ræða. Segja þeir að áður hafi sérstakur saksóknari og ríkissaksóknari vísað málinu frá sér á mjög afgerandi hátt.

Uppfært 21:50

Björgólfur Thor hefur ákveðið að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×