Innlent

Tæplega 75 þúsund skrifað undir

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Undirskriftasöfnuninni var ýtt úr vör á 22. janúar og hefur Kári gefið út að hún muni standa yfir í 10 vikur.
Undirskriftasöfnuninni var ýtt úr vör á 22. janúar og hefur Kári gefið út að hún muni standa yfir í 10 vikur. vísir/gva
Tæplega 75 þúsund manns hafa ritað nafn sitt á kröfulista Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, þess efnis að ellefu prósentum af vergri landsframleiðslu verði varið í íslenska heilbrigðiskerfið.

Næst fjölmennasta söfnunin

Ef miðað er við fjölda kjósenda á kjörskrá árið 2013 hafa um 31 prósent atkvæðisbærra manna skrifað á listann. Söfnunin er því á góðri leið að verða sú fjölmennasta í sögu íslenska lýðveldisins en enn sem komið er skipar hún annað sætið. Markmiðið er að safna hundrað þúsund undirskriftum.

Stærsta söfnunin var árið 2009 þegar um 83 þúsund manns mótmæltu hryðjuverkalöggjöf Breta, en þar voru að einnig að finna nöfn frá öðrum ríkjum. Þá skrifuðu sjötíu þúsund manns undir stuðning við flugvöllinn í Vatnsmýri.

Alls vildu 56 þúsund að forsetinn synjaði staðfestingarlögum um ríkisábyrgð á Icesave-skuldum og 55 þúsund skrifuðu undir söfnunina Varið land árið 1974 um áframhald aðildar að Atlantshafsbandalaginu og veru varnarliðsins.

Meðlimir í félaginu Já Íslandi afhentu forseta Alþingis og þingflokksformönnum allra flokka 53.555 undirskriftir þann 2. maí 2014. Þá var skorað á Alþingi að leggja þingsályktunartillögu, um að draga til baka umsókn Íslands að Evrópusambandinu, til hliðar og boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

51.296 skoruðu svo á forseta Íslands í átakinu Þjóðareign að vísa öllum lögum þar sem fiskveiðiauðlindum væri ráðstafað til lengri tíma en eins árs í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sú söfnun stóð yfir í 69 daga - rétt tæpar 10 vikur.

Undirskriftasöfnun Kára var ýtt úr vör á 22. janúar og hefur Kári gefið út að hún muni standa yfir í 10 vikur.


Tengdar fréttir

Kári vill að ríkissjóður borgi allan kostnaðinn

Kári Stefánsson segir að sú hugmynd að menn þurfi að draga upp kreditkortið sitt á slysavarðsstofu sé ósmekkleg og ljót. Hann vill að ríkið standi undir öllum kostnaði við heilbrigðisþjónustu landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×