Innlent

Tæplega 1,3 milljón ferðamenn komu til landsins í fyrra

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Langflestir ferðamenn komu til landsins í gegnum Keflavíkurflugvöll.
Langflestir ferðamenn komu til landsins í gegnum Keflavíkurflugvöll. Vísir/Stefán
Tæplega 1,3 milljónir ferðamanna komu hingað til lands í gegnum Keflavíkurflugvöll á síðasta ári. Það er þrjátíu prósent fjölgun frá árinu 2014 þegar um 970 þúsund ferðamenn komu til landsins í gegnum völlinn. 

Þetta kemur fram í samantekt Ferðamálastofu en niðurstöður hennar eru að samtals hafi 1.289.140 ferðamenn komið hingað til lands í gegnum flugvelli landsins og Seyðisfjörð. Það er 29,2 prósentum fleiri en árið 2014.

Til viðbótar komu 100 þúsund ferðamenn til Reykjavíkur með 108 skipum en það er 4,5 prósent fækkun á milli ára. Langflest skemmtiferðaskip, eða 96 prósent þeirra, hafa viðkomu í Reykjavík.

Flestir ferðamennirnir eru af tíu mismunandi þjóðernum; Bretar og Bandaríkjamenn voru fjölmennastir eða 38,3 prósent af heildarfjölda ferðamanna. Þar á eftir komu ferðamenn frá Þýskalandi, sem voru 8,2 prósent, og Frakklandi, 5,2 prósent.

Mest munaði um Bandaríkjamenn, Breta, Kínverja og Þjóðverja, samkvæmt Ferðamálastofu en 90.781 fleiri Bandaríkjamenn komu 2015 en árið 2014, 60.521 fleiri Bretar, 21.606 fleiri Kínverjar og 17.469 fleiri Þjóðverjar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×