Enski boltinn

Stal Arsenal vitlausum njósnara af Leicester City? | Svo segir Lineker

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gary Lineker með kylfingnum Justin Rose.
Gary Lineker með kylfingnum Justin Rose. Vísir/Getty
Gary Lineker er á því að Arsenal hafi gert mistök þegar liðið samdi við Ben Wrigglesworth, yfirmann njósnadeildar Leicester City. Guardian segir frá þessu.

Lineker er stuðningsmaður Leicester City sem var hans æskufélag. Hann er þó frægari fyrir framgöngu sína hjá Everton, Barcelona og Tottenham.

Ben Wrigglesworth tilkynnti það á samfélagsmiðlum í þessari viku að hann væri á förum til Arsenal eftir að hafa unnið í þrjú ár hjá Leicester City.

Steve Walsh, aðstoðarstjóri Leicester City, var einnig orðaður við starf hjá Arsenal. Hann er sá maður sem Gary Lineker telur að eigi mesta hrósið skilið fyrir að finna marga lítt þekkta leikmenn sem hafa síðan slegið í gegn hjá Leicester City og skilað liðinu í efsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

„Ég elska það að Arsenal stal vitlausum njósnara. Christian Fuchs, N’Golo Kanté, Riyad Mahrez og Jamie Vardy. Það var Steve Walsh sem fann þessa leikmenn og fékk þá til Leicester City," sagði Gary Lineker. Hann er vel inni í hlutunum hjá sínu uppeldisfélagi og er því ekki að tala um hluti sem hann þekkir ekki.

„Ég veit að þegar hann fann Riyad Mahrez þá var hann kominn til að horfa á annan leikmann en kom með nafn Riyad Mahrez til baka. Hann hefur skilað frábæru starfi og það hefur verið lykilatriði í velgengni Leicester. Eins og hjá öllum félögum þá snýst þetta um þá leikmenn sem þú færð inn í félagið. Leicester hefur náð í öfluga leikmenn þrátt fyrir að hafa úr litlum peningi að spila miðað við risana," sagði Lineker.

„Leicester hefur náð þessum árangri af því að liðið er með góða leikmenn. Þeir hafa yndislegan liðsanda og mikla hæfileika til að sækja hratt. Það er merkileg staðreynd að þeim hefur tekist að finna alla þessa leikmenn á sama tíma og mörgum öðrum félögum hefur gengið mun verr. Þetta er síðan engin tilviljun því þeir hafa núna spilað svona í eitt ár," sagði Lineker.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×