Íslenski boltinn

Skilar sér í mjög miklum vinsældum íþróttarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
365 ehf. og Ölgerðin Egill Skallagrímsson gengu í dag frá samningi um nafnarétt efstu deilda Íslandsmóts karla og kvenna í knattspyrnu og er þessi nýi samningur til næstu þriggja ára.

Pepsi-deildirnar verða því áfram í sviðsljósinu næstu árin eins og í sjö ár þar á undan. Þetta þýðir jafnframt að efstu deildir íslenska fótboltans munu bera nafnið Pepsi-deildin í að minnsta kosti heilan áratug.

Guðjón Guðmundsson ræddi við þá Andra Þór Guðmundsson, forstjóra Ölgerðarinnar, og Sævar Freyr Þráinsson, forstjóra 365, í kvöldfréttum Stöðvar tvö.

Pepsi-deildin mun áfram heita Pepsi-deildin eins og undanfarin ár en samningarnir  voru undirritaðir í höfuðstöðvum KSÍ.

„Þetta gefur okkur sýnileika, þetta gefur vörumerkinu vigt og stimplar okkur inn sem alvöru vörumerki. Ekki síst þá er þetta líka samfélagsverkefni fyrir ölgerðina því það er hluti af okkar samfélagsábyrgð að styrkja íslenska fótboltann," segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar.

Kom til greina að breyta nafninu á deildunum?

„Pepsi-deildin er orðin svo vel innstimpluð inn í huga þjóðarinnar en vissulega hugleiddum við það. Eftir gaumgæfilegan athugun ákváðum við að halda nafninu áfram," sagði Andri Þór.

Umfangið og umfjöllunin um Pepsi-deildirnar verður meiri og ítarlegri hjá 365 miðlum en nokkru sinni.

„Þetta er gríðarlega vinsæl íþrótt og mikilvægt fyrir okkur að geta boðið upp á þess leiki beint heim í stofu til fólks," sagði Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365.

„Það hefur sýnt sig að aukin umfjöllun, bæði í sjónvarpi, fréttum og svo að vera með beinar útsendingarnar og Pepsi-mörkin, eru að skila sér í mjög miklum vinsældum íþróttarinnar. Við ætlum að halda áfram að styðja við íslenska fótboltann þannig og gefa enn frekar í," sagði Sævar Freyr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×