Körfubolti

Hér er ástæða þess að Stólarnir sakna Jerome Hill ekki neitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jerome Hill í leik með Stólunum á móti KR.
Jerome Hill í leik með Stólunum á móti KR. Vísir/Ernir
Keflavík tekur á móti Tindastól í 19. umferð Domino´s deildar karla í körfubolta í kvöld en leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Keflvíkingar unnu 11 af fyrstu 13 leikjum sínum í deildinni en annar af þessum tveimur tapleikjum kom í fyrri leik liðanna á Króknum. Tindastóll vann þann leik 97-91.

Keflavík hefur unnið öll lið deildarinnar nema Tindastól og FSu sem liðið mætir í næstu umferð. Stólarnir geta því orðið fyrstir til að vinna Keflvíkinga tvisvar í vetur.

Keflavíkur teflir fram leikmanni í kvöld sem Stólarnir þekkja vel en það er Bandaríkjamaðurinn Jerome Hill sem lék þrettán leiki með Tindastóls áður en hann var látinn fara.

Jerome Hill fór ekki langt því hann samdi við Keflavík og hefur spilað þrjá leiki með liðinu. Hill var með 17,6 stig, 10,7 fráköst, 1,8 stoðsendingar og 0,4 varin skot í leik með Tindastól en hefur hækkað þau meðaltöl upp í 22,7 stig, 14,0 fráköst, 5,7 stoðsendingar og 2,3 varin skot með Keflavík.

Tindastólsliðið hefur unnið þrjá leiki í röð síðan að Jerome Hill var rekinn og liðið vann einnig báða leiki sína fyrir komu hans.

Tindastóll vann aðeins 5 af 13 leikjum sínum með Hill og Keflvíkingar hafa tapað tveimur síðustu leikjum sínum með hann innanborðs.

Jerome Hill hefur því aðeins fagnað sigri í 6 af 16 leikjum á þessu tímabili en Keflavík og Tindastóll hafa aftur á móti unnið samtals 17 af 20 leikjum án hans.



Sigurhlutfall liða með Jerome Hill í Domino´s deild karla í vetur:

Keflavík: 33 prósent (1 sigur - 2 töp)

Tindastóll: 38 prósent (5 sigrar - 8 töp)

Samanlagt: 38 prósent (6 sigrar - 10 töp)

Sigurhlutfall liða án Jerome Hill í Domino´s deild karla í vetur:

Keflavík: 80 prósent (12 sigrar - 3 töp)

Tindastóll: 100 prósent (5 sigrar - 0 töp)

Samanlagt: 85 prósent (17 sigrar - 3 töp)



Leikur Keflavíkur og Tindastólsverður sýndur beint á Stöð 2 Sport og hefst útsendingin klukkan 19.00 í kvöld. Öll 19. umferðin verður síðan gerð upp í Körfuboltakvöldi sem hefst klukkan 22.00 en spekingar Kjartans Atla Kjartanssonar í kvöld verða þeir Fannar Ólafsson og Kristinn Friðiksson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×