Ísilagðir dalir norðurpóls Plútó eru greinilegir á nýrri mynd sem Geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, hefur gefið út.
Það var geimfarið New Horizons sem náði myndinni þegar það flaug nærri Plútó í júlí á síðasta ári. Fyrir miðju og til vinstri sést mikið gil eða gljúfur sem talið er vera allt að 72 kílómetrar að breidd.
Myndir frá New Horizons hafa sýnt fram á að víða á Plútó má finna gljúfur sem þykir benda til þess að á einhverjum tímapunkti hafi flekahreyfingar átt sér stað á Plútó.
New Horizons er enn að senda gögn frá Plútó heim til jarðar. Áætlanir gera ráð fyrir því að það muni taka um eitt ár að senda öll þau gögn er geimfarið safnaði á flugi sínu framhjá Plútó.
Nánar má lesa um myndina og það sem á henni sést á vef NASA.