Fjölmenna lögregluaðgerðin í Móabarði í Hafnarfirði í gærkvöldi var vegna annarrar alvarlegrar árásar á konu á heimili hennar. Þetta staðfestir Árni Þór Sigmundsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Vísi. Málið er á afar viðkvæmu stigi en um aðra árásina er að ræða á sjö dögum á heimili konunnar. Árni segir um sama árásarmann að ræða en hans er leitað.
„Þetta eru hvort tveggja alvarlegar árásir,“ segir Árni en lögregla sendi frá sér tilkynningu í morgun vegna árásarinnar í gærkvöldi sem var um áttaleytið.
Ekki liggja fyrir nánari lýsingar á manninum eftir árás gærkvöldsins en honum er lýst sem 35-45 ára fölleitum karlmanni og um 180 sm á hæð.
Málið í algjörum forgangi
Samkvæmt heimildum Vísis hefur lögreglan við afar takmarkaðar upplýsingar að styðjast í málinu sem þó er í algjörum forgangi hjá kynferðisbrotadeildinni og litið mjög alvarlegum augum.
Árásin í gærkvöldi átti sér stað klukkan átta en sú fyrri síðastliðinn mánudagsmorgun, sömuleiðis um áttaleytið. Þá mun maðurinn hafa villt á sér heimildir til að komast inn á heimili konunnar þar sem hann er grunaður um að hafa brotið á henni.
Þeir sem geta veitt upplýsingar um manninn og ferðir hans eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglu á skrifstofutíma í síma 444 1000. Upplýsingum má einnig koma á framfæri á netfangið abending@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Lögregluútkallið í gær aftur vegna alvarlegrar árásar
Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
