Erlent

Seðlabankastjóri segir ESB hafa hjálpað Bretum

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Mark Carney, seðlabankastjóri Englands, segir ESB hafa hjálpað Bretlandi.
Mark Carney, seðlabankastjóri Englands, segir ESB hafa hjálpað Bretlandi. Mynd/Getty
Bankastjóri Seðlabanka Englands, Mark Carney, segir að samstarf Bretlands við Evrópusambandið hafi aukið umsvif Breta í viðskiptalífinu og um leið innan breska hagkerfisins.

Carney bendir á þetta í kjölfar þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað um það hvort Bretar skuli vera innan sambandsins eða ekki. Þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhaldandi veru Bretlands innan ESB verður haldin þann 23. júní á þessu ári.

Íhaldsmenn þar í landi hafa sakað Carney um að vera hliðhollur Evrópusambandinu og segja þessi ummæli hans vera fyrir neðan virðingu seðlabankans. Carney vísar þessum ásökunum á bug og segir hvorki sig né bankann taka afstöðu í máli Bretlands um áframhaldandi veru innan sambandsins.

Norman Smith, blaðamaður BBC, segir að Carney hafi tekið í sama streng og David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, að Bretar skuli ekki segja skilið við Evrópusambandið.

Carney ítrekar enn fremur að ef svo yrði að Bretland gengi úr Evrópusambandinu, væri gengi sterlingspundsins ógnað ásamt getu seðlabankans til þess að stemma stigu við verðbólgu þar í landi. Hann bendir þó á að óljóst sé hverjar framtíðarhorfur Bretlands séu, muni útganga landsins úr Evrópusambandsins verða að veruleika, hvort sem þær yrðu góðar eða slæmar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×