Skoðun

Internetið og jafnrétti kynjanna

Heiða Björg Hilmisdóttir skrifar
Konur hafa sannarlega náð miklum árangri með jafnréttisbaráttu sinni síðustu 100 árin og á alþjóðlegum baráttudegi kvenna er hollt að minna sig á að stutt er síðan að konur fengu rétt og tækifæri til að mennta sig, vinna a.m.k. lagalega séð fyrir sömu laun og karlar, kjósa, bjóða sig fram til trúnaðarstarfa, eiga eignir og tjá skoðanir sínar. Allt eitthvað sem okkur lang flestum finnst svo sjálfsögð réttindi að við eigum það til að gleyma hvað það er stutt síðan samfélagið okkar snérist nær eingöngu um karla og þeir tóku ákvarðanir um og fyrir konur. Konur hafa breytt samfélaginu til góðs því með auknu jafnrétti verður til sterkara og betra samfélag. Þegar internetið kom til sögunnar héldu margir því fram að þar væri kominn fram vettvangur sem mundi styðja við jafnrétti enda væru þar allir jafnir og kynþáttur, kyn eða hvað annað sem samfélög heimsins nota til að greina fólk í sundur væri ekki til staðar. Þannig mundi internetið frelsa konur frá líkömum sínum því konur gætu nýtt menntun sína og þekkingu og sýnt að konur hafa jafn mikið til málanna að leggja og karlar. Í fyrirlestri sem Dr. Mary Anne Franks hélt á ráðstefnu í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna í október í fyrra kom fram að þrátt fyrir góðar fyrirætlanir í upphafi þá hefur internetið þróast með þeim hætti að í stað þess að stuðla að jafnrétti og jöfnuði manna á milli stuðlar það að því að viðhalda óréttlæti og ójöfnuði í heiminum. Líklega byggir það á því að þeir sem hafa mótað internetið eru hvítir millistéttar karlar, 90% af tæknimönnum bakvið internetið og 96% stjórnenda eru karlar og þeirra viðhorf og sjónarhorn hefur því mótað þá ramma um samskipti sem búnir voru til. Það er mikilvægt að muna að internetið byggir á þeim gildum og hugsunum þeirra manna og ríkisstjórna sem komu að mótun þess, hvað þeim fannst eðlilegt, hvernig samskipti eru eðlileg, hvað fólk á að hafa frelsi til að tjá og birta og viðheldur þar með ekki bara gömlum valdastrúrktúr heldur skapar ný tækifæri til kúgunar og ofbeldis á ýmsum sviðum. Intenetið varð ekki bara til, það var búið til og það er lykilbreyta í öllum nútímasamfélögum. Rúm 42,4% jarðarbúa nota internetið og á Íslandi er talan um 95 %. Á hverri mínútu eru fleiri en 4 milljón atriði googluð í heiminum, 2,5 milljón nýjar færslur á facebook, 300þúsund ný tíst á twitter, 220 þúsund myndir eru settar inn á Instagram, 72 klukkustunda efni er hlaðið inn á youtube og yfir 200 milljón tölvupóstar eru sendir. Í heiminum hafa 200milljón fleiri karlar en konur hafa aðgang að internetinu og þrátt fyrir að kynjahlutföllin séu nokkuð jöfn hér heima virðist það sama eiga við varðandi hvernig kynin birtast á netinu.

Misrétti gegn konum hefur viðgengist lengi og leið kynjakerfisins til að viðhalda gömlu valdaójafvægi hefur meðal annars verið kynbundið ofbeldi. Slíkt ofbeldi hefur nú fundið sér nýjar leiðir inn á internetið með tilkomu hrellikláms og dreifingar á klámi sem gengur út á að misþyrma og niðurlægja konur. Skaðinn sem þetta veldur konum er ekki viðurkenndur sem alvarlegur og þeim jafnvel kennt um, þeir sem birta nektarmyndir af konum án þeirra samþykkis eru sjaldan ákærðir eða sakfelldir og ekki heldur þeir sem búa til síður sem ætlaðar eru fyrir slíkar myndbirtingar. Í fyrirlestir Mary Anne Franks kom fram að þúsundir heimasíðna eru til á netinu þar sem fólk getur farið inn og deilt myndum eða skoðað myndir sem skilgreina má sem hrelliklám og að 9 af hverjum 10 myndum sem birtast eru af stelpum eða konum. Oftast eru myndirnar tengdar upplýsingum um nafn, aldur, símanúmer, tölvupóstfangi, og jafnvel skóla eða heimilisfangi. Rannsókn sýndi að allt að 10% fólks hótar að birta nektarmyndir af af kærustu eða maka sínum og 60% af þeim birtir myndirnar. Þegar myndin er komin á netið er nánast ógjörningur að taka hana til baka og þar til síðastliðið sumar var hægt að nálgast allar myndir með því að googla viðkomandi. Nú hafa Google, Twitter og Facebook tekið sig til og rutt brautina fyrir réttindum þolenda með því að viðurkenna ábyrgð sína á því sem birtist á þeirra vefsvæðum og taka út myndir af einstaklingum ef óskað er eftir því. Þeim ber þó ekki lagaleg skylda til þess og leysa í raun ekki vandamálið sem er annars vegar að fólk er að dreifa myndunum og hins vegar að það eru til sérstakar síður sem eru til þess gerðar og lög virðast ekki ná utanum það. Því er hrelliklám stórt og vaxandi vandamál sem gengur meira og minna út á að niðurlægja aðra og það mun ekki hverfa nema að við tökum höndum saman og stoppum það. Áhrif hrellikláms á samfélagið eru grafalvarleg því að smám saman verður það eðlilegt að birta nektarmyndir af fólki án samþykkis, hóta því að birta slíkar myndir og að kynlíf snúist um völd yfir öðrum og að það sé í lagi að niðurlægja fólk sér til skemmtunar. Áhrifin á þolendur ofbeldisins eru þau að þetta þaggar niður í konum sem ekki vilja taka áhættuna að verða fyrir barðinu á hrelliklámi og láta því lítið fyrir sér fara því fylgi þær ekki reglum karlanna eiga þær þetta á hættu. Þarna er því komið tæki sem hefur áhrif á réttindi kvenna og tækifæri þeirra til að láta að sér kveða í samfélaginu. Konur sem verða fyrir þessu ofbeldi láta sig hverfa, hætta í skóla, vinnu og konur hafa tekið líf sitt vegna myndbirtinga. Á síðasta ári kröfðust ungar konur þess að samfélagið stæði með þeim þegar þær þustu út á samfélagsmiðla og götur berbrjósta undir #freethenipple myllumerkinu. Þær ætla ekki að láta bjóða sér þetta og við sem samfélag eigum að standa með þeim.

Við verðum að gera sömu kröfur um jafnrétti og mannréttindi á internetinu og í öðrum mikilvægum þáttum samfélags okkar. Hrelliklám, kynbundið ofbeldi eða mismunun kynjanna má ekki verða eðlilegur veruleiki í netheimum frekar en annarsstaðar og við þurfum að vera óhrædd við að takast á við þar verkefni, hvort sem við nýtum til þess fræðslu, lagasetningu eða breyttar leikreglur á internetinu. Jafnrétti kynjanna þarf að gilda allstaðar, alltaf.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×