Innlent

Bruninn á Grettisgötu: „Sýnist öll verk mín síðustu tveggja, þriggja ára vera farin“

Atli Ísleifsson skrifar
Halldór Ragnarsson myndlistarmaður og stúdíó hans á Grettisgötu.
Halldór Ragnarsson myndlistarmaður og stúdíó hans á Grettisgötu. Vísir/Anton/Ingvar Högni Ragnarsson
„Öll verkin mín, allt er þarna í skralli held ég,“ segir Halldór Ragnarsson myndlistarmaður sem hefur verið með stúdíó að Grettisgötu 87 þar sem mikill eldur kom upp fyrr í kvöld.

Hann segist sjálfur hafa verið í sundi þegar eldurinn kom upp. „Stúdíóið er vestanmegin í húsinu en eldurinn virðist hafa komið upp austanmegin. Ég hef samt ekki fengið að vita neitt. Þeir eru að sprauta inn á verkstæðið bakvið stúdíóið mitt. Mér sýnist öll verk mín síðustu tveggja, þriggja ára vera farin.“

Hann segir fyrst og fremst vera um málverk og teikningar að ræða sem nú liggi undir  skemmdum. „Ég fylgist nú með þeim sprauta bæði inn til mín og inn á verkstæðið.“

Halldór segir eldinn ekki hafa kviknað hjá sér heldur austanmegin í húsinu. „Mér sýnist samt allt mitt hafurtask, tölvur og öll mín gögn vera farin fyrir bí. Mig grunar það. Þetta er hrikalegt.“

Hann segir að auk stúdíósins sé Bílrúðan með verkstæði í húsinu og svo sé lítill líkamsræktarsalur þar sem eldurinn hafi mögulega komið upp. „Ég veit það að sjálfsögðu ekki en þar voru þeir að slökkva eldinn.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×