Erlent

Credit Suisse telur ástandið í Evrópu vera alvarlegt

Sæunn Gísladóttir skrifar
Mario Draghi, bankastjóri Evrópubankans, skar niður innlánsvexti bankans um aðein 0,1 prósent í desember sem olli vonbrigðum á mörkuðum.
Mario Draghi, bankastjóri Evrópubankans, skar niður innlánsvexti bankans um aðein 0,1 prósent í desember sem olli vonbrigðum á mörkuðum. Vísir/AFP
Greiningaraðilar hjá Credit Suisse telja að efnahagsástandið í Evrópu sé mjög veikburða og ekki enn á batavegi eftir erfiða byrjun árs 2016.

Í minnisblaði sem Credit Suisse sendi frá sér nýlega kemur fram að á síðustu þremur mánuðum hafa efnahagsskilyrði í Evrópu breyst verulega. Í desember bentu fjölmargir vísar til þess að bjartari tímar væru fram undan í Evrópu. Væntingavísitölur neytenda og fyrirtækja voru háar, og fóru hækkandi. Útgjaldaáætlanir fyrirtækja voru að aukast og neytendur eyddu meiru vegna hækkandi launa og lægra olíuverðs.

Nú beina greiningaraðilar sjónum sínum sérstaklega að fjórum atriðum sem sýna fram á af hverju þeir eru svartsýnir um efnahagsástandið í Evrópu. Í fyrsta lagi hafa vísitölur í þjónustu- og framleiðslugeiranum lækkað verulega síðan í desember. Í öðru lagi benda kannanir Credit Suisse til þess að fyrirtæki hafi dregið úr útgjaldaáætlunum sínum í Evrópu.

Í þriðja lagi hafa skilyrði á fjármálamarkaði versnað, meðal annars vegna ótryggðra skulda banka og lækkunar á hlutabréfaverði. Að lokum verður Evrópubankinn að lækka verðbólguspá sína aftur. Kjarnaverðbólga virðist vera að lækka á ný. Ljóst er því að ástandið í Evrópu hefur snarversnað frá því í desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×