Skoðun

Einkarekstur ekki rétta leiðin

Elín Björg Jónsdóttir skrifar
Þó ástæða sé til að fagna því að heilbrigðisráðherra hyggist fjölga heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu um þrjár varar BSRB við áformum um að stöðvarnar verði einkareknar. Bandalagið hvetur til þess að áformin verði endurskoðuð og að nýju stöðvarnar þrjár verði reknar á samfélagslegum grunni.

Heilsugæslan hefur verið eins konar olnbogabarn í heilbrigðiskerfinu árum saman. Þar hefur verið skorið óhóflega niður í fjárveitingum og reynst erfitt að fá lækna og annað starfsfólk til starfa. Ein af afleiðingum þess er sú að endurnýjun í stétt heilsugæslulækna hefur verið allt of lítil.

Engin opinber umræða hefur farið fram um áform ráðherra. Kannanir sýna að mikill meirihluti landsmanna vill að það sé fyrst og fremst hið opinbera sem komi að rekstri heilbrigðiskerfisins. Breytingar sem þessar ætti ekki að gera í andstöðu við almenning í landinu, notendur þjónustunnar.

Breytt rekstrarform á heilsugæslustöðvum mun eitt og sér ekki leiða til þess að aðgengi að heilsugæslunni verði betra. Ef ætlunin með þessum áformum er að fá heimilislækna til starfa er alls óvíst að sú tilraun takist.

BSRB hvetur til þess að önnur leið verði farin til að bæta mönnun á heilsugæslustöðvum um allt land. Bandalagið hefur mótað stefnu um fjölskylduvænt samfélag, sem hefur það að markmiði að hjálpa fólki að samræma fjölskyldulíf og vinnu. Má í því samhengi nefna styttingu vinnuvikunnar og bætt samspil atvinnulífs og skóla.

Það er augljóst að efla þarf heilsugæsluna um allt land verulega. Til þess þarf fyrst og fremst að bæta umtalsverðum fjármunum í málaflokkinn. BSRB hvetur heilbrigðisráðherra til að endurskoða áform um tilraunastarfsemi með heilsugæsluna. Við hvetjum ráðherra til að leggja þess í stað aukna fjármuni og vinnu í að gera heilsugæsluna að fyrsta viðkomustað í heilbrigðisþjónustunni og aðlaðandi vinnustað.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×