Innlent

Hinn níræði átti ekki fyrir tíma hjá tannlækni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá Hornafirði
Frá Hornafirði Vísir
Tæplega níræður karlmaður átti ekki fyrir tannlæknakostnaði þegar hann fór í skoðun ásamt vini sínum á Hornafirði. Kom það vini hans í opna skjöldu og varð í framhaldinu til þess að farið var að skoða fjárhagsstöðu mannsins. Í ljós kom að bankareikningur hans hafði verið svo gott sem tæmdur í þremur millifærslum upp á um 42 milljónir króna.

Vísir greindi fyrr í dag frá ákæru á hendur rúmlega fimmtugum karlmanni fyrir að hafa notfært sér bágindi hins tæplega níræða manns til að afla sjálfum sér fjármuna, fyrrnefndar 42 milljónir. Málið var þingfest við Héraðsdóm Austurlands í morgun en maðurinn neitar sök.

Mennirnir þekkjast mjög vel og hafa gert í fleiri áratugi. Hefur það komið mörgum kunnugum í opna skjöldu að hann hafi notfært sér bágindi mannsins vegna langt gengins Alzheimer sjúkdóms til að hafa af honum fé. Brot mannsins varðar allt að tveggja ára fangelsi.

Um er að ræða þrjár millifærslur sem framkvæmdar voru dagana 1. ágúst 2014 og 8. september 2014. Í báðum tilfellum mun maðurinn hafa heimsótt manninn á hjúkrunardeild á Hornafirði og farið með hann út í banka þar sem millifærslurnar voru framkvæmdar.

Í ákærunni segir að manninum geti ekki hafa dulist ástand fórnarlambsins sem „gat hvorki gert sér grein fyrir þýðingu ráðstafananna né um hve mikla fjármuni væri að ræða.“ Maðurinn er sem fyrr segir tæplega níræður, búsettur á hjúkrunardeild og á enga lögerfingja á lífi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×