Manchester United og Liverpool eiga bæði von á sektum frá Knattspyrnusambandi Evrópu eftir að UEFA ákvað að kæra félögin fyrir framkomu stuðningsmanna þeirra á Old Trafford í gærkvöldi.
Manchester United og Liverpool gerðu 1-1 jafntefli í þessum seinni leik liðanna í sextán liða úrslitunum og þau úrslit tryggðu Liverpool sæti í átta liða úrslitum.
Stuðningsmenn félaganna sáust slást í stúkunni, sætisbök voru rifin upp og þeim kastað og bæði blys og flugeldar voru á lofti. Fimm menn voru á endanum handteknir af lögreglunni í Manchester-borg.
Bæði félög hafa nú verið ákærð af UEFA fyrir ólæti áhorfenda.
Sjá einnig:Sætisbök á flugi og hnefar á lofti á Old Trafford í gær
Liverpool fær meðal annars ákæru fyrir níðsöngva og að tendra flugelda inn á vellinum.
Það vekur athygli að söngvar Liverpool-stuðningsmanna hafa verið teknir fyrir því Manchester United var ekki refsað fyrir níðsöngva sinna stuðningsmanna um Hillsborough-harmleikinn í fyrri leiknum.
Málið verður þó ekki tekið fyrir af Aganefnd UEFA fyrr en 19. maí eða daginn eftir úrslitaleik Evrópudeildarinnar í Basel.

