Innlent

Vilja miðhálendið á heimsminjaskrá

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Vilhelm
Lögð var fram þingsályktunartillaga í dag um að setja miðhálendi Íslands á heimsminjaskrá. Tillagan felur í sér að ríkisstjórnin setji hálendið á yfirlitsskrá yfir þá staði til stendur að skrá sem heimsminjar UNESCO. Þá verði verði heimsminjanefnd Íslands að undirbúa umsókn þar að lútandi.

Þingvellir og Surtsey eru einu staðirnir á Íslandi sem eru á heimsminjaskránni í dag.

Tillagan er flutt af Helga Hjörvari, en meðflutningsmenn hennar eru Guðlaugur Þór Þórðarson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Róbert Marshall, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Willum Þór Þórsson og Össur Skarphéðinsson. Málið var áður flutt árið 2006.

Í greinargerð með tillögunni er farið yfir sérstöðu miðhálendisins. Það búi yfir margvíslegu og sérstöku náttúrufari og megi þar fyrst nefna flekamót Evrasíu- og Norður-Ameríkuflekans. Þá sé íslenski möttulstrókurinn staðsettur undir hálendinu og honum fylgi hreyfingar á landi, landris og gliðnun sem óvíða í heiminum séu jafn sýnilegar og aðgengilegar og hér.

„Eldvirkni, jarðhiti og samspil jökla og vatnaleiða setja mark sitt á svæðið. Þá er þar að finna sérstæðar jarðmyndanir, eldstöðvar og sjaldgæft gróðurfar og þar eru að auki stórar varpstöðvar fugla og búsvæði hreindýra svo eitthvað sé nefnt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×