Erlent

Móðir Teresa tekin í dýrðlingatölu í september

Atli Ísleifsson skrifar
Móðir Teresa var þekkt fyrir starf sitt í fátækrahverfum Kalkútta í Indlandi og hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1979.
Móðir Teresa var þekkt fyrir starf sitt í fátækrahverfum Kalkútta í Indlandi og hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1979. Vísir/AFP
Móðir Teresa verður tekin í dýrðlingatölu þann 4. september næstkomandi. Frá þessu greinir Frans páfi.

Móðir Teresa var þekkt fyrir starf sitt í fátækrahverfum Kalkútta í Indlandi og hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1979. Hún lést árið 1997, 87 ára að aldri.

Hún var tekin í tölu blessaðra árið 2003 og Frans páfi lýsti því svo yfir á síðasta ári að hún hafi framkvæmt annað kraftaverk. Því er ekkert því til fyrirstöðu að Móðir Teresa verði tekin í dýrðlingatölu.

Móðir Teresa, eða Agnese Gonxha Bojaxhiu, fæddist árið 1910 og átti albanska foreldra. Hún ólst upp í makedónsku höfuðborginni Skopje sem þá heyrði undir Tyrkjaveldi.

Nítján ára gömul gekk hún til liðs við írsku regluna Loreto og var send til Indlands þar sem hún kenndi undir nafninu Teresa í skóla í Darjeeling. 1946 flutti hún svo til Kalkútta til að hjálpa bágstöddum og tíu árum síðar setti hún á laggirnar skóla og heimili fyrir munaðarlaus börn.

Móðir Teresa hefur einnig sætt gagnrýni fyrir sín störf, meðal annars fyrir að tala fyrir harðlínutrú og að þiggja fé frá einræðisherrum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×