Erlent

Segir Uber-appið hafa stjórnað líkama sínum

Samúel Karl Ólason skrifar
Jason Dalton.
Jason Dalton. Vísir/Getty
Uber bílstjóri sem sakaður er um að hafa skotið sex manns til bana segir Uber-appið hafa stjórnað líkama sínum. Jason Dalton mun hafa keyrt um borgina Kalamazoo í Michigan í Bandaríkjunum í síðasta mánuði og skotið á fólk af handahófi.

Héraðsmiðillinn WZZM hefur undir höndum afrit af gögnum málsins.

Við yfirheyrslur sagði Dalton að appið stjórnaði honum. Það hafi fyrst gerst þegar hann ýtti á takka í bíl sínum og „djöflahöfuð“ hafi birst á skjánum. Það hafi litið út eins og kýr með horn og það hefði falið honum verkefni og taka yfir líkama hans.

Auk þeirra sem hann myrti særði hann tvo til viðbótar en allar árásirnar framkvæmdi hann á fimm klukkustunda tímabili þann 20. febrúar. Dalton hefur játað. Læknar meta nú geðheilsu hans og hvort hann sé hæfur til að sitja réttarhöld. Könnunin felur ekki í sér athugun á því hvort Dalton er ósakhæfur vegna geðheilsu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×