Erlent

Einstakar myndir af kynlífi panda líta dagsins ljós

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Einstakar myndir náðust á dögunum af tveimur pöndum að makast í dýragarðinum í Vínarborg í Austurríki. Erfitt getur reynst að fá pöndur sem eru í haldi manna til að stunda kynmök.

Í náttúrunni eignast pöndur afkvæmi á tveggja ára fresti að meðaltali sem þykir engu að síður lág fæðingartíðni. Enn erfiðara er þó fyrir pöndur í haldi manna, svo sem í dýragörðum, að makast. Vísindamenn áttuðu sig snemma á því að pöndur í haldi misstu annað hvort áhugann á því að stunda kynlíf eða vissu hreinlega ekki hvernig ætti að bera sig að því.

Það virðist ekki vera vandamál fyrir birnina tvo í dýragarðinum í Vín. Mökunarglugginn er þó ekki opinn í langan tíma, birnan er aðeins eðlunarfús í tvo til sjö daga á 12-25 daga tímabili á vorin. Eftir að glugginn lokast þurfa birnirnir að bíða í heilt ár þangað til hægt er að reyna að nýju.

Pöndur eru í útrýmingarhættu en áætlað er að um tvö þúsund pöndur séu til í heiminum. Vísindamenn hafa því áttað sig á því að mikilvægt sé að hvetja til þess að pöndur í haldi eignist afkvæmi. Í því skyni hafa þeir gefið pöndum stinningarlyfið Viagra auk þess sem að einhverjir pandabirnir hafa fengið að sjá pönduklám.

Ekki virðist þó vera þörf á því í dýragarðinum í Austurríki líkt og sjá má á meðfylgjandi myndbandi hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×