Körfubolti

Bonneau fór meiddur af velli | Myndband

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sagan endalausa um Stefan Bonneau heldur áfram. Eftir langa bið og mikla umfjöllun spilaði Bandaríkjamaðurinn loksins sína fyrstu mínútur með Njarðvík á tímabilinu.

Það varð hins vegar stutt gaman hjá kappanum. Eins og sést á meðfylgjandi myndbandi meiddist Bonneau á hægri fæti, svo mikið að hann treysti sér ekki til að stíga í löppina. Hann valhoppaði svo beinustu leið út af og í búningsklefann.

Bonneau sleit hásin á æfingu áður en tímabilið hófst í haust en endurhæfingin hefur gengið vel hjá honum og hefur hann verið á skýrslu í síðustu tveimur leikjum Njarðvíkur.

Teitur Örlygsson, aðstoðarþjálfari Njarðvíkur, greindi svo frá því að Bonneau myndi spila sínar fyrstu mínútur með liðinu í kvöld, sem og hann gerði.

Sjá einnig: Teitur segir að Bonneau spili í Ljónagryfjunni í kvöld

„Oddur bað hann um smá hjálp og Stefan fannst gott að heyra það. Ég geri ráð fyrir því að hann hvíli Odd í kvöld þegar þurfa þykir," sagði Teitur Örlygsson í samtali við karfan.is.

Bonneau var búinn að spila í þrjár mínútur og 37 sekúndur þegar hann haltraði af velli þegar rúmar sex mínútur voru eftir af öðrum leikhluta. Þegar þetta er ritað er óljóst hvort að hann spili meira í leiknum en útlitið er ekki gott.

Bonneau náði ekki að skora á þessum tíma en hann tók eitt frákast og gaf eina stoðsendingu.

Leiknum er lýst beint á íþróttavef Vísis en hann verður svo gerður upp í Körfuboltakvöldi á Stöð 2 Sport sem er að þessu sinni sent út frá Þorlákshöfn, þar sem heimamenn í Þór spila við Njarðvík.


Tengdar fréttir

Gunnar: Bonneau búinn að vera ótrúlega duglegur

Gunnar Örlygsson, formaður Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur, ætlar ekki aðeins að fylgjast vel með þegar Stefan Bonneau spilar sinn fyrsta leik með Njarðvík eftir hásinarslit því formaðurinn ætlar að spila sjálfur með Bonneau í kvöld.

Gunnar Örlygs: Ekkert nema náungakærleikur að leyfa Stefan Bonneau að vera hérna

Bandaríski körfuboltamaðurinn Stefan Bonneau er að jafna sig eftir hásinarslit en hann er engu að síður í kringum Njarðvíkurliðið í öllum leikjum og hefur sett á svið skotsýningu fyrir síðustu leiki. Gunnar Örlygsson, formaður Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur, er ekki búinn að afskrifa það að hann verði með liðinu í úrslitakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×