Innlent

„Leyndin elur á tortryggni“

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Guðni Th. Jóhannesson.
Guðni Th. Jóhannesson. vísir/gva
Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur fagnar tillögu um að ákvæði um 110 ára regluna svokölluðu verði fellt úr gildi. Hann segir ákvæðið samræmast illa nútíma stjórnarháttum og kröfum um gagnsæi í stjórnsýslunni. Leyndin ali á tortryggni sem þurfi að uppræta úr íslensku samfélagi.

„Ég myndi hiklaust telja þetta jákvætt. Að öllu jöfnu myndi maður ætla að gögn þurfi ekki að vera hulin leynd í rúma hálfa öld. Maður getur sætt sig við að stundum þurfi að halda skjölum lokuðum um stundarsakir. Almenna reglan hér heima og víðar á vesturlöndum er kannski sú að skjöl eins og til dæmis skýrslur frá sendiráðum utanríkisráðuneytis séu lokuð í 25-30 ár, en einkamálefni, tik dæmis sjúkraskýrslur lengur þó vinna megi upp úr þeim tölulegar upplýsingar,“ segir Guðni.

„En að eitthvað þurfi að vera lokað í rúma öld samræmist illa nútíma stjórnarháttum og kröfum um gagnsæi í stjórnsýslunni,“ bætir hann við.

Þingflokkur Framsóknar samþykkti á fundi sínum í gær að leggja fram frumvarp um afnám 110 ára reglunnar en með breytingum á upplýsingalögum árið 2011 var ákveðið að stjórnvald geti lokað á skjöl í allt að 110 ár. Það þýddi meðal annars það að gögn, til dæmis í Icesave-málinu, gætu verið hulin leyndarhjúpi allan þann tíma. Guðni segir óeðlilegt að gögnum sé haldið svo lengi frá almenningi.

„Sérstaklega þar sem því máli [Icesave] er lokið. Kannski var staðan sú þegar gögn urðu til í deilunni miðri að menn litu svo á að það gæti hugsanlega skaðað hagsmuni Íslands að einhverjar upplýsingar kæmu fram um íslenska hagsmuni, íslenska samningataktík eða eitthvað í þeim dúr. En nú er búið að kveða niður Icesave-drauginn eins og menn segja sumir þannig að varla er sú hætta fyrir hendi og leyndin elur á tortryggni. Ef það er eitthvað sem við þurfum að vinna bug á í þessu samfélagi þá er það tortryggni, því þessi leynd og leynimakk allt saman er að gera mann lifandi vitlausan,“ segir Guðni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×