Lífið

Í draumi sérhvers manns

Sigurjón M. Egilsson skrifar
2016. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, lætur óviljugur af embætti forsætisráðherra þegar um eitt ár til þingkosninga.
2016. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, lætur óviljugur af embætti forsætisráðherra þegar um eitt ár til þingkosninga.
Þegar litið er til stöðunnar nú, rifjast ósjálfrátt upp hið stórbrotna ljóð Steins Steinarr; Í draumi sérhvers manns:

Í draumi sérhvers manns er fall hans falið.

Þú ferðast gegnum dimman kynjaskóg

af blekkingum, sem brjóst þitt hefur alið

á bak við veruleikans köldu ró.

Þinn draumur býr þeim mikla mætti yfir

að mynda sjálfstætt líf, sem ógnar þér.

Hann vex á milli þín og þess, sem lifir,

og þó er engum ljóst, hvað milli ber.

Gegn þinni líkamsorku og andans mætti

og öndvert þinni skoðun, reynslu og trú,

í dimmri þröng, með dularfullum hætti

rís draumsins bákn og jafnframt minnkar þú.

Og sjá, þú fellur fyrir draumi þínum

í fullkominni uppgjöf sigraðs manns.

Hann lykur um þig löngum armi sínum,

og loksins ert þú sjálfur draumur hans.

Ekki veit ég hvað varð til þess að skáldið góða orti þetta fína ljóð. Þó langt sé um liðið á það enn við, ekki síst nú.

En hví vaknaði ráðherrann upp af drauminum?

Hvar er draumurinn?

Já, hvar er draumurinn? Í raun má halda að ungan mann, einsog Sigmundur Davíð Gunnlaugsson óneitanlega er, og einkum var á árinu 2009 þegar hann varð formaður Framsóknar, hafi hreinlega ekki getað dreymt um allt það sem hefur gerst í hans lífi á þeim fáu árum sem eru liðin frá 2009. Ferð hans á hæsta tind íslenskra stjórnmála varð hvort tveggja hröð og óvænt. Á þeim stutta tíma sem er liðinn hefur margt drifið á daga hans.

Sumt eðlilegt. Annað alls ekki. Á þeim tæpu þremur árum sem Sigmundur Davíð var forsætisráðherra var hann lánsamur. Öll skilyrði til reksturs ríkisins voru alla hans valdatíð með eindæmum þægileg. Tekjurnar jukust og jukust og innkaup til landsins urðu sífellt hagstæðari. Lukkan fylgdi honum.

Oft, já svo oft, hefur sannast að þeir sem fremst standa sýni frekar snilli sína, staðfestu og hæfni þegar á móti blæs. Þá reynir á fólk. Þegar svigrúmið er þröngt. Jafnvel hart og jafnvel ósanngjarnt. Sigmundur Davíð slapp að mestu við þannig viðfangsefni.



Draumar og martraðir

Sagan endurtekur sig. Nú eru nánast rétt tíu ár frá því einn af forverum Sigmundar Davíðs varð að gefast upp sem forsætisráðherra. Halldór Ásgrímsson lét ef embætti forsætisráðherra snemma sumars árið 2006, þegar um eitt ár var til kosninga. Rétt eins og nú.Framsóknarflokkurinn hafði verið í lægð og framganga formannsins þáverandi varð flokknum ekki til framdráttar. Svo fór að eftir sveitarstjórnarkosningar gafst Halldór upp, hætti og Geir H. Haarde tók við. Þetta er efni í aðra og mikla sögu, sögu sem ekki verður sögð hér.

En draumur Halldórs um að láta til sín taka í forsætisráðuneytinu breyttist í martröð. Allt varð honum mótdrægt. Ekkert gekk eins og hann hafði dreymt um.

Halldór þá, rétt einsog Sigmundur Davíð nú, skipaði eigin ráðherra, ráðherra sem átti ekki sæti á Alþingi og hafði aldrei verið kjörinn til þess, til að taka sæti í ríkisstjórn sem hann sjálfur yfirgaf.

Halldór skýrði hvers vegna hann gerði vin sinn Jón Sigurðsson að ráðherra: „Koma Jóns Sigurðssonar inn í ríkisstjórnina er að mínu mati mjög af hinu góða. Ég tel að það styrki ríkisstjórnina. Jón Sigurðsson hefur yfirburðaþekkingu að mínu mati. Hann hefur gífurlega reynslu á nánast öllum sviðum þjóðfélagsmála. Við Jón Sigurðsson höfum þekkst frá því við vorum saman í gagnfræðaskóla og höfum haldið sambandi síðan, þannig að ég tel að það sé mikill styrkur fyrir Framsóknarflokkinn að fá hann til starfa. Hver framtíð hans verður innan flokksins ætla ég ekki að fullyrða, en hann er maður sem bæði ég og ég held nánast allir aðrir í Framsóknarflokknum hafa mikla trú á,“ sagði Halldór meðal annars í viðtali við Örnu Schram blaðamann.

Allt minnir þetta á atburðina núna. Sá sem þetta skrifar man vel eftir Halldóri og átti tíð samskipti við hann. Halldóri tókst ekki að uppfylla draum sinn. Segja má að draumur hans hafi breyst í martröð, rétt eins og draumur Sigmundar Davíðs nú.

Halldór svaraði þannig þegar Arna blaðamaður spurði hann um ástæður þess að hann léti af embætti: „Það er mín ákvörðun að það sé rétti tíminn fyrir mig núna að stíga til hliðar. Það gæti verið efni í nokkurra daga viðtal að fjalla um það af hverju nákvæmlega. Ég ætla ekki að fara út í það núna.“

Að vakna af draumi

Sigmundur Davíð hefur vaknað af draumi sínum. Hann gerir líkt og Halldór áður, setur eigin ráðherra í ríkisstjórnina, ríkisstjórn sem hann sjálfur hrökklast úr. Nú, eins og þá, hefur enginn stigið fram og efast um hæfi nýja ráðherrans; Lilju Alfreðsdóttur.

Munurinn á Halldóri og Sigmundi Davíð er mikill. Sigmundur er til þess að gera nýr í stjórnmálunum. Halldór var margreyndur, hafði gengið í gegnum mjög margt. Og svo hitt. Halldór hætti. Sigmundur Davíð ekki.

Fram undan er tími að loknum ljúfum draumi. Lesa má að Sigmundur Davíð kenni Bjarna Benediktssyni um að hann sé ekki lengur í draumalandinu. Stórir kaflar eru enn ósagðir og óskrifaðir af tíðindum síðustu daga í stjórnmálasögu Íslands.

Sigmundur Davíð er byrjaður. Hægt en bítandi. Bendir á forsetann, bendir á forystu Sjálfstæðisflokksins. Það er kul þar sem áður var vinátta og samstarf.



2016. Sigurður Ingi Jóhannsson varaformaður Framsóknarflokksins, freistar þess að ljúka verki sínu. Nokkuð sem forverum hans í Framsókn hefur ekki tekist.
Steytt á skeri

Þó hér hafi verið rifjað upp þegar Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, fann ekki aðra leið en segja draumastarfi sínu lausu má ekki skilja sem svo að staða þeirra formanna, Halldórs þá og Sigmundar Davíðs nú, sé eins og hún er varla svipuð. Nema hvað varðar afsögnina sem slíka.

Við sem höfum lengi fylgst með stjórnmálum munum sennilega ekki annað eins og það sem nú hefur dunið á ykkur. Myndun ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsen var um margt sérstök og skók allt samfélagið, einkum Sjálfstæðisflokkinn.

Samt er ótrúlegt að það fár allt saman nái að vera samlíking við það sem nú hefur gerst. Í raun má segja að afleikirnir í því sem nú hefur orðið séu langtum fleiri en nokkur getur slegið tölu á. Og annað er, að fólkið í landinu, almenningur, kjósendur, hafa nú meiri möguleika en nokkru sinni til að tala saman, stilla saman strengi. Þess sér stað á Austurvelli og á Facebook.

Martröð eða draumur?

Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins, er dreginn til ábyrgðar nú. Honum er ætlað að róa á móti straumnum. Hann er nýjasti forsætisráðherra Framsóknarflokksins. Þeir tveir næstu á undan honum náðu ekki að róa til hafnar. Hvort Sigurði Inga takist það er bara ekki líklegt.

Fyrir utan harða stjórnarandstöðu, reiði almennings og mótmæli, býr hinn nýi forsætisráðherra við að hafa óstýrilátan eigin formann sem óbreyttan þingmann, formann sem á eftir að rugga bátnum, þingmenn sem eru afar ósáttir með stöðuna, samstarfsflokk sem glímir við eigin vanda og verki.

Það er ekki meðbyr með þriðja forsætisráðherra Framsóknarflokksins á aðeins tíum árum. Þeir tveir fyrri játuðu sig sigraða, náðu ekki að lokamarkinu. Eðlilegt er að halda svo fari einnig fyrir þeim þriðja, sem á þó ekki langa leið fyrir höndum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×