Skoðun

Dagmundur og faldi fjársjóðurinn

Ívar Halldórsson skrifar
Dagmundur hét drengur einn sem bjó í Þingstræti. Hann fékk að passa sandkassa fyrir leikskólastýruna Lýðveldi á leikskólanum Í hverfinu. Þetta var mikill heiður fannst honum. Hann settist í sandkassann sposkur á svipinn og byrjaði að moka ofan í fötu. Lýðveldur hafði lánað honum fötu og skóflu. Það var samt alveg bannað að moka sandi út fyrir sandkassann, sagði Lýðveldur honum.

Dagmundur sagði öllum krökkunum að hann væri að passa sandkassann fyrir Lýðveldi, og það væri bannað að taka sand úr sandkassann.

Dagmundur fékk lánaða fötu og skóflu. Honum fannst gaman að moka ofan í fötuna með skóflunni sinni. En hann langaði til að geyma fötuna með flotta sandinum í fyrir utan sandkassann. Þannig ætti hann alltaf flottan sand til að leika sér með seinna. Ef sandurinn í sandkassanum myndi til dæmis klárast, eða ef einhver myndi pissa í hann, þá ætti hann þennan fína aukasand til að leika sér með.

Vinur hans Gjaldur frá Eyri, sem bjó í Bankastrætinu, sagði að þetta væri góð hugmynd. Þegar enginn sá, laumaði Dagmundur fötunni yfir sandkassabrúnina, og geymdi hana í grasinu fyrir utan sandkassann.

Hann gaf Skatthildi vinkonu sinni svo karamellu fyrir að fylgjast með fötunni. Skatthildur var sátt við sitt og tuggði karamelluna með bestu lyst.

Hann var duglegur að láta hina krakkana vita að það borgaði sig alltaf að hafa allan sandinn í sandkassanum og ekki sniðugt að taka sand úr kassanum. Lýðveldur hafði sagt honum það. Ef allir myndu taka sand úr kassanum myndi enginn sandur verða eftir til að leika sér með. Og ef hundur myndi koma og skíta í sandinn þá væri bara hægt að nota vettlinga og halda áfram að moka. Krökkunum fannst þetta skynsamlegt.

Einn daginn sá einn strákurinn úr hverfinu að Dagmundur var að geyma sand í fötu fyrir utan sandkassann. Strákurinn sem hét Almann Borgarr hafði alltaf fundist Dagmundur vera skemmtilegur strákur. Honum gramdist samt að Dagmundur bannaði honum að taka sand úr sandkassann, þegar hann gerði það svo sjálfur. Almann Borgarr sagði öllum krökkunum að Dagmundur væri plötuskjóða.

Seinna um daginn þegar Dagmundur var að moka í sandkassanum komu krakkarnir úr hverfinu og sögðu honum að fara úr sandkassanum. „Af hverju?“, spurði Dagmundur. Af því að þú ert plötuskjóða! Dagmundur virtist mjög hissa og sagði: „En ég gaf Skatthildi karamellu fyrir að passa fötuna!“




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×