Innlent

Ótrúleg uppákoma: Höskuldur leysti frá skjóðunni á undan áætlun

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknar, hélt að búið væri að segja fjölmiðlamönnum frá niðurstöðu af fundi þingflokks Framsóknarflokksins þegar hann rölti niður stigann og mætti hópi fjölmiðlamanna á Alþingi.

Höskuldur sagði niðurstöðuna þá að Sigurður Ingi yrði forsætisráðherra og um það væri einhugur í flokknum. Þá sagði hann að Lilja Alfreðsdóttir væri einnig ráðherraefni Framsóknarflokksins. Ekki lægi fyrir hvenær efnt yrði til kosninga en Framsókn og Sjálfstæðisflokkur er enn á fundi.

Nefndi Höskuldur að Lilja Alfreðsdóttir væri ráðherraefni flokksins áður en hann áttaði sig á því að fjölmiðlamenn hefðu ekki fengið þau tíðindi. Staðfesti hann í kjölfarið að Sigurður Ingi væri forsætisráðherraefni flokksins.

Þurfti Höskuldur í kjölfarið að halda aðeins aftur af sér í spjalli við fjölmiðla. Var hann spurður að því hvenær yrði efnt til kosninga og sagði hann haustið hafa verið nefnt í því samhengi.

Höskuldur viðurkenndi í kjölfarið að hann hefði talið að búið væri að tilkynna fjölmiðlum það sem hann greindi fjölmiðlum frá.

Sumir hafa rifjað upp kosningar til formanns Framsóknarflokksins árið 2009 þegar talið var að Höskuldur hefði náð kjöri. Sá fögnuður stóð skammt yfir en í ljós kom að Sigmundur Davíð væri réttkjörinn nýr formaður.

Frétt um þann eftirminnilega landsfundi Framsóknarmanna má sjá í spilaranum að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×