Skoðun

Það sem Sigmundur gæti gert

Ívar Halldórsson skrifar
Það sem Sigmundur Davíð gæti sagt og margir Íslendingar vildu gjarnan heyra hann segja til að sátt náist í okkar samfélagi:



„Kæru Íslendingar,

Ég geri mér grein fyrir því að traust er undirstaða farsældar og gæfu. Ég geri mér einnig grein fyrir því að án ykkar trausts hefði mér aldrei verið treyst fyrir embætti forsætisráðherra. Ég er afar þakklátur og met mikils það traust sem þið hafið sýnt mér.

Í ljósi atburða líðandi stundar þar sem persónuleg fjármál mín eru í kastljósinu vegna gruns um misferli, tel ég brýnt að ég geri fulla grein fyrir málasökum með afgerandi hætti. Það er á minni könnu að verða við kröfu ykkar um að færa með sannanlegum hætti, rök fyrir því að ég hafi hvergi brotið lög né brugðist trausti ykkar. Með öðrum orðum þá þarf ég að endurvinna traust ykkar – og það ætla ég mér að gera.

Ég þarf þó að gera mér grein fyrir því að traust íslensku þjóðarinnar og þingsins er ekki mikið eins og sakir standa í dag. Heimsbyggðin veltir vöngum og reynir að gera upp hug sinn um hvort ég sé með óhreint mjöl í pokahorninu.

Að endurvinna traust ykkar mun taka tíma. Dýrmætan tíma. Eins og málin standa í dag er lítill vinnufriður til að takast á við aðkallandi málefni sem ríkisstjórnin þarf að sinna og leysa, þar sem öll orka þings og miðla fer í að reyna að fá botn í mín persónulegu mál. Ég þarf sem kjörinn forsætisráðherra að hlusta á raddir ykkar og virða það að þið hafið efasemdir um mína hagi.

Þótt efitt sé verð ég að gera mér grein fyrir því að ég get ekki náð tilskyldum árangri í starfi mínu þegar ég nýt hvorki trausts samstarfsmanna minna né ykkar.

Ég hef því ákveðið að setja ykkur og hagsmuni þjóðarinnar í forgang. Það er ótækt að aðkallandi mál og afspurn þjóðarinnar sitji á hakanum á meðan ég geri hreint fyrir mínum dyrum.

Ég ætla því, þótt mér reynist það erfitt, að stíga til hliðar sem forsætisráðherra. Ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að ávinna traust ykkar aftur hvort sem ég komi til með að sinna þingstörfum aftur eða ekki. Það mun ég gera til þess að þið sjáið hversu mikils ég met traust ykkar, og til þess að þið vitið á að þið settuð traust ykkar á réttan mann þegar þið kusuð mig fyrst í þetta embætti."

Svona uppgjör kynni ég að meta sem Íslendingur.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×